Að kaupa skútu og flytja heim. Frá hugmynd til heimkomu (2014-2015)

Um ákvörðunartöku á leið til Þórshafnar

ON 28. FEBRÚAR, 2017 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGE1 ATHUGASEMDBREYTA

Maður er mengi þeirra ákvarðana sem maður hefur tekið um ævina, misgáfulegar sumar verður að segjast. En það verður víst ekki aftur snúið og því eins gott að læra að lifa með þeim. Þessi sem sögð verður frá hér er ekki þess konar ákvörðun að hún sé eitt púslið í sjálfinu „ég“ en er minnistæð fyrir aðrar sakir og olli nokkrum valkvíða á sínum tíma. Líklega á maður ekki að vera að segja svona sögur af sjálfum sér.

Sjógalinn minn er samfestingur. Hann var hannaður með það í huga að fljóta með þann sem hverju sinni er innbyrðis svona ef hrykki útbyrðis. Hann „andar“ ekki, er alveg lokaður og vatnsheldur og ef það  heitt úti og maður svitnar já þá er svitinn ekkert að rjúka út í veður og vind. Það getur líka verið brölt að komast úr honum, svona Houdini æfingar þó maður setji sig ekki úr axlarlið. Ekki meira um það í bili.

En við erum á leið til Færeyja, um 40 mílur eftir og góða veðrið uppurið sem hafði verið amk síðustu 12 klukkustundar og kominn alvöru stormur í bakið og hundfúllt. Það var búið að taka nær öll segl niður, aðeins handklæðastærð af rúllufokkunni var úti. Strákarnir voru farnir niður og búið að loka skútunni til að eiga ekki á hættu að alda kæmi yfir og fyllti skútuna sjó. Ég sat einn aftur á og stýrði inn. Ég hef lýst því fyrr í þessum skrifum hvernig rennireið það var og átök að halda skútunni á réttri braut og missa ekki á hlið þegar aldan brotnaði í toppnum og skútan renndi sér niður öldudalinn. Veðrið var þannig að ég batt mig á bæði borð. Við vorum orðnir nær rafmagnslausir því alternatorinn hafði gefið sig á leiðinni. Það voru nokkur % eftir á símanum þar sem við vorum með sjókort en tölvan var búin með sitt rafmagn og gagnlaus. Neyslugeymirinn var tómur en það var enn rafmagn á startgeymi. Hugsunin var bara ekki búin að ná þangað á þeim tíma. Það hefði því verið hægt að svissa á milli svona „manual“. Það gekk á með regnhryðjum og hundfúllt. Að sigla nær lens við þessar aðstæður var ekki skemmtilegt. Skyggnið var þó ágætt.  Þegar nær dró Nólsoy en ég sigldi norður með henni (ég ákvað að stinga mér norður fyrir Nólsoy og þar inn til Þórshafnar) var þetta orðið soldið alvöru og brot hingað og þangað kringum mig með tilheyrandi hávaða og látum. Strákurinn stakk öðru hverju hausnum út og gaf mér upplýsingar um stöðuna á sjókorti gsm símans og hann lýsti því síðar þannig að hann hefði alltaf verið að horfa bak og fyrir ofan mig á öldurnar sem voru orðnar ansi háar og gnæfðu yfir.

Jæja kjarni málsins og niðurlag sögunnar. Þegar þarna var komið, veðrið kolvitlaust að mér fannst og reyndi virkilega á stjórn skútunnar, ég bundin á bæði borð og þá ….jæja þá var mér mál að pissa. Hvað gerir maður? Að leysa sig úr böndum og reyna að koma sér úr gallanum því rennilásinn endar ofan nafla var ekki að gera sig. Að standa upp og renna niður-ekki hægt. Að biðja strákana um að taka við í svona aðstæðum til þess að renna sér frammí á salernið var heldur ekki að gera sig að mér fannst. Það var því fátt í stöðunni.

Þegar við komum inn til Þórshafnar og vorum búnir að fá  lykla að sturtu og þvottahúsi siglingaklúbbs bæjarins og mál að þvo fyrstu vél þá harðneitaði strákurinn að setja sinn sjógalla með mínum í þvottavélina. þetta var langur texti um annars litla sögu.

Nýju alternatorinn kom úr Suzuki og er búin að lifa ágætu lífi síðan. Leivur, færeyskt vélaséni er þarna að bjástra reddaði þessu…að sjálfsögðu. Færeyingar eru engum öðrum líkir í hjálpsemi.

20150606_180012

Þegar sjór tók að flæða inn í skútuna- að við héldum

ON 13. FEBRÚAR, 2017 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Man ekki hvort ég hef sagt frá því fyrr en þegar við sóttum bátinn þá var um 20cm vatn yfir gólfplötunum og aðkoman ekki falleg. Hann vissi af þessu nokkru áður eigandi hafnarinnar en gerði ekkert fyrr en daginn áður en við komum en þá dældu þeir mestu úr bátnum. Það voru þó góðir 100 lítar eftir í honum sem við síðan usum þegar við mættum á svæðið.  Hann var nokkuð skömmustulegur eigandinn þegar ég færði honum Jagermeister flösku sem þakklæti fyrir umhirðuna en eigendur höfðu beðið hann um að líta eftir bátnum fyrir mína hönd þar til ég sækti skútuna. En vænsti maður í alla staði og var okkur innan handar eftir þetta. Skemmdir voru minniháttar og þetta var rigningarvatn en þarna hafði rignt eldi og brennisteini síðustu mánuði. Segl sem var aftan á skut, ætlað að bægja frá vatni hafði virkað eins og trekt fyrir vatn niður í bátinn. Við þurrkuðum upp hvern dropa, hentum öllum dýnum út til þerris (fengum nokkra klst. án rigningar í Noregi og þær voru nýttar til hins ýtrasta), hitinn í botn og allar gáttir opnaðar. Það varð fljótt þurrt og þægilegt í bátnum og annar undirbúningur gat hafist.

Rigningarvatn
Skúturaunir

Síðar hófst siglingin niður skerjagarðinn og allt í sóma þar til við fórum að fjarlægjast Noregsstrendur. Það var byrjað að hvessa og aldan að hækka. Skútan var farin að velta umtalsvert. Við sátum allir aftur í skut. Ég man ekki hvort það var ég eða annar sem var við stýrið en mér er litið niður í bátinn og sé að það er farið að flæða sjór yfir gólfplöturnar fyrir neðan þrepin. „Djöfullin sjálfur-skútan er farin að taka inn sjó“. Ég fór yfir í huganum, meðan ég stökk niður í bátinn, öll þau göt í bátnum þar sem sjór gæti komið inn, bæði undir vöskum, wc, niður úr skut, pústgreinina o.fl..  Ég leitaði að upptökun en fann ekkert. Þetta var ekki „í rólegheitum“ aðgerð, því ég gerði mér enga grein yfir magninu sem var að velkjast þarna eða hvaðan það gæti verið að koma inn. Það voru nokkrir lítrar bara yfir fjölunum. Í látunum rifum ég og Róbert innvolsið úr tveimur neðri skápum og brutum meira að segja gólfið úr einum til að komast betur að. Fundum ekkert! Ég var orðin hugsi yfir þessu en datt þá í hug að bragða á sjónum. Hann smakkaðist eins og olíublandað kjölvatn sem þykir ekki góður drykkur. Niðurstaðan var sú að það hefði verið rigningarvatn hingað og þangað í skut og undir vél og jafnvel frammí líka sem við höfðum ekki náð í. Þegar skútan fór að hreyfast svona mikið fór þetta á stjá og safnaðist þarna saman. Við þurkuðum þetta upp og var ekki vandamál upp frá því.

Sagan um Baltasound

ON 12. FEBRÚAR, 2017 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Eyjan Unst er nyrsta byggða eyjan í Hjaltlandseyja klasanum.Stærsta byggðin þar er Baltasound  Vegna vindáttar og öldulags tók ég þá ákvörðun þegar verst var að stefna þangað í stað þess að reyna við Leirvík. Að krusa eitthvað var alveg út úr sögunni fannst mér og engin áhugi á slíku eins og veður og öldulag var. Taldi það öruggast. Stefnan var þó á Jan Meyen fyrst í stað því við gátum ekki siglt vestar eða þar til við komum nær Hjaltlandseyjum. Þá fór vindur að snúast, lægja og orðin suðvestan og nánast skemmtisigling. Það var mikil gleði hjá okkur félögunum þegar við fórum að nálgast, vindur skaplegur og rólegheit yfir öllu og öryggi.  Myndin hér fyrir neðan er einmitt tekin við það tækifæri 27.05.2016 kl. 20:30 og um klukkustund eftir inn. Sést glitta í land þarna hægra megin á myndinni.

20150527_203129

Róbert, þessi til vinstri var búin að lofa að kyssa jörðina þegar við kæmum til lands. Benedikt, strákurinn minn brosti basra. Ég lofaði hins vegar að kaupa handa okkur góða heita máltíð og ískaldann öl. Við lentum í höfn að mig minnir um kl. 21:30.  Hugmyndin var að borða, fylla á af olíu og leggja svo strax af stað til Leirvíkur eða um miðnætti.

Þarna er mynd af höfninni og er tekin af wikipedia. Þessi blái lá þarna á sama stað. Þegar við lögðum að og klifruðum upp stigann á bryggjuna var það fyrsta sem ég sá, stór dauð rotta hálf undir og hálf undan stórri brettastæðu. Bryggjan var þar að auki drulluskítug af olíu og úrgangi og allt kyssistand hjá Róberti var algjörlega rokið út í veður og vind.

Myndaniðurstaða fyrir baltasound

Við þurftum að ganga nokkurn spotta upp að hóteli sem var þarna fyrir ofan höfnina. Þar var engin matur þ.e. veitingasalur lokaður en pöbb við hlið hótelsins og þar gátum við fengið okkur öl. Þeir seldu þó engan mat og þó að ölið rynni ljúft þá var það ekki beint málið. Öl og flögur var því kvöldmaturinn þetta skiptið og súkkulaðistykki eða tvö.

Ég spurði þar hvar ég gæti keypt olíu og var bent á hús/verslun norðar og ofar þarna á eyjunni (mjög strjálbýlt þar sem við lentum- megin byggðin sunnar). Ég tölti þangað en þar var allt lokað og engin sjálfsali þ.e. opnað var fyrir olíusöluna úr búðinni. Það var því ekki annað hægt en að bíða til morguns. Við röltum því niður í bát og sváfum ágætum  svefni fram til morguns. Ég tölti þá af stað með tvo 20 lítra brúsa en þetta var ca. 20 mínútna gönguferð.  Keypti olíu og eitthvað matarkyns  í leiðinni enda birgðir orðnar litlar af ferskmeti um borð. Indæl kona bauð mér síðan far niðureftir og sparaði mér heldur betur sporin að ég tala ekki um að burðast með 40 lítra af olíu niður að höfn. Ég kíkti á hótelið í leiðinni og ætlaði að panta morgunverð fyrir okkur 3. Það voru svona 6 manns í mat og starfsmaður á miklum þönum og apallega um sig sjálfann. Þarna var morgunverðarhlaðborð og fullt af góðgæti á borðum.  Ég spurði hvort ég gæti ekki pantað mat fyrir okkur 3, en nei því miður það væri bara svo mikið að gera að það væri ekki hægt. Það var því morgunmatur um borð í skútunni, geymirinn fylltur upp af olíu og lagt af stað um leið og hægt var til Leirvíkur þar sem við áttum góðar stundir næstu daga. Baltasound er gamall síldveiðibær sem má muna fífil sinn fegri. Þeir fáu einstaklingar sem við hittum voru kurteisir en „áhugalausir“ og dálítil deyfð yfir staðnum.

Tvær ósagðar sögur úr ferðinni

ON 4. FEBRÚAR, 2017 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Ætla að halda til haga minningum frá ferðinni. Þær eruð farnar að veðrast dálítið og því ágætt að skrifa niður. Ég hef  lýst því áður að við vorum óheppnir með veður á leiðinni. Ferðin frá Noregi til Hjaltlands sérstaklega erfið og nær stöðugur vindur á móti frá 12m í 16m mest af leiðinni og hviður þá líklega upp 14m til 20m þegar verst lét. Við vorum ef ég man rétt um 56 klst yfir frá strönd Noregs til Hjaltlandseyja. Í blábyrjun ferðar og þegar við lentum var vindur þó minni. Ég svaf af mér háhyrningahóp sem fylgdu okkur fyrstu mílurnar frá Noregi meðan veðrið var sem skást. Skilst á strákunum að það hafi verið meiriháttar ævintýri.

En það var kröpp og há alda og bara hundleiðinlegt sjólag leiðina yfir frá Noregi eða þar til við fórum að nálgast Hjaltlandseyjar og komumst loksins í almennilegt skjól fyrir vestanáttinni. Ég tók  næturvaktirnar sem urðu dálítið langar sem var eðlilegt þar sem ég var með mestu reynsluna af siglingum. Hafði þó aldrei siglt í myrkri í svona veðri. Það var óskemmtilegt mestan part. Ég tók líka meira af dagvöktunum sérstaklega þegar veðrið var sem verst. Ég var orðinn helvíti þreyttur og við allir enda lítið hægt að hvílast þegar mikið gengur á.

Eitt skiptið þar sem ég sat áveðurs niðri í skútunni frekar uppgefin og bjóst til að standa upp, skall kröftug alda á hlið skútunnar. Ég hentist eins og biljarð kúla  yfir á hina hlið skútunnar, rak gagnaugað í gluggakarminn og lyppaðist niður meðvitundarlítill. Man ég horfði út þegar lappirnar sviku og Róbert stórvinur sem sat við stýrið spurði „er allt í lagi með þig Pétur“.  Þetta voru bara sekúndur en svona gerast slysin. Það var/er líka eitt vandamál við skútuna að það eru ekki nægilega góðar höldur inni þegar pus er og mikil hreyfing. Ég hafði því ekki góða handfestu.

Hinn atburðurinn gerðist um nótt. Við sigldum með öll ljós í skútunni kveikt og dregið frá gluggum svo við værum eins sýnilegir í myrkrinu eins og hægt væri. Þau voru nefnilega biluð hliðarljósin (kom síðar í ljós lélegt jarðsamband) en mastursljós og skutljós voru í lagi. Held að þetta hafi verið nóttin fyrir atburðinn sem ég var að lýsa hér fyrir ofan þó svo að skuggar gleymskunnar séu þegar farnar að falla á þessar minningar og  tímaröðin eitthvað að brenglast. Hvað um það. Þetta var um nótt og veðrið eins og þegar hefur verið lýst. Strákurinn minn svaf hlémegin (myndi sofa af sér Ragnarrök og vakna ekki fyrr en jörðin risi í annað sinn) og var bundinn en Róbert hafði kastað sér til hvílu  vindmegin til að krækja sér í lúr. Borð lág skorðað á hlið á miðju gólfinu á milli þeirra en enginn hafði haft rænu á að ganga frá þ.e binda það niður í hamaganginum eða fjarlægja. Skyndilega skall óvenju kröftug alda á skrokk skútunnar. Ég var með horfa með öðru auganu niður í skútuna þegar þetta gerist og ég sé Róbert lyftist upp úr kojunni rétt eins og hann væri í þyngdarleysi, upp yfir og út á mitt gólf og þar skall hann niður á áðurnefnt borð. Þetta var eins og væri sýnt hægt í kvikmyndavél. Við héldum fyrst að hann hafi rifbeinsbrotnað en sem betur fer var það bara mar og hann jafnaði sig á nokkrum dögum enda maðurinn heljarmenni og er þar engu logið.

Þeir sögðu mér báðir strákarnir síðar að í þessum hluta ferðar hafi þeir talið af og til að þetta væri þeirra síðasta. Ég upplifði það þó ekki sjálfur þannig. Helvíti hvasst í lengri tíma og leiðinlegt öldulag, stress og þreyta en ekki manndrápsveður. Mér var hins vegar um og ó síðustu mílurnar inn til Þórshafnar og saga að segja frá því nokkuð skondin. Þá voru þeir afslappaðri.
Ég á einhverjar fleiri sögur /frásagnir úr ferðinni og þarf bráðum að koma þeim frá mér á blað áður en ég gleymi þeim alveg.  Ein tengist þegar við komum loks til Baltasound, önnur þegar við sjáum að það var farið að flæða inn sjór í skútu að við héldum, sú þriðja af klósettinu og sú fjórða af almennu hugarástandi við að sigla einn frá Færeyjum til Íslands sem var dálítið sérkennleg reynsla (þessi fimmta er þá um aðkomuna að Þórshöfn).

Sjóveikissaga og fleira skemmtilegt

ON 18. MARS, 2016 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Jæja, helvíti langt síðan ég hef sett hér inn línu. Bauð mig fram sem formann Snarfara og hlaut kosningu. Svona gerast slysin. Líka nóg að gera í vinnu og kannski bara ekki mikið að segja frá þessa daganna. Bökkum því aðeins í tíma.

Sjóveiki. Ótrúlega hvimleitt fyrirbæri. Hef að mestu verið laus við það amk þegar ég er á skútu en er hætt við slíkum viðbjóði þegar ég er á vélbát.  En smá saga frá því í fyrra þegar við sigldum frá Noregi til Íslands.

Við tókum sjóveikislyf í upphafi ferðar. Sjólag var mjög leiðinlegt við Noregstrendur. Undiralda og straumar og vindur á móti þannig að við fórum hægt yfir á mótor og seglum. Strákarnir tóku lyf en ég límdi bak við eyrað sjóveikisplástur. Gerðum það of seint þannig að allir urðum við aðeins varir við smávelgju þarna í upphafi. Síðan hvessti svo um munaði, öldulagið breyttist og þá hresstist maður. Undiraldan er verst.  Þegar reipið sem dregur rúllufokkuna fór á leiðinni til Hjaltlands í skítabrælu var ekki annað en að gera en að skríða fram á og reyna að laga. Róbert vinur min lá á bakinu fremst á stafni og reyndi að koma lítilli skrúfu inn í örlítit gat sem hélt reipinu inni. Ég sat við hliðina með verkfærin. Mikil alda og hvasst og báturinn hoppaði og skoppaði þarna á stórum öldum. Þá fundum við báðir fyrir smá sjóveiki en lagðaðist um leið og við vorum búnir að laga og skriðnir aftur út í skut. Þá vorum við hættir að taka lyf og ég henda plástrinum.  Maður verður nefnilega dálítið vankaður og sljór af þessu dóti.  Á leiðinni frá Hjaltlandi til Færeyja setti ég á mig sjoveikisplástur. Hugmyndin var að gera það í upphafi ferðar og hætta svo eftir hálfan eða heilann sólarhring. Vissum að það yrði pus þarna fyrst og ég vildi vera nógu hress á meðan við sjóuðumst. Ég límdi seinni plásturinn bak við eyrað. Það voru nefnilega tveir plástrar í pakkningunni og þeir eiga held ég að duga amk 2 sólarhringa hvor. Ég skildi ekkert í því að fyrstu svona 6 klst í frekar krappri öldu þá fann ég dálítið til sjóveiki. Lagði mig ekki en fann að ég var ekki að mér eins og ég átti að vera. Kenndi plástrinum um. Þegar ég svo átti hvíld og fór úr sjógallanum áttaði ég mig á því að ég hafði límt plásturinn á kragann á gallanum en ekki á mig. Tek svo skútuna upp á sunnudagin eða það er planið. Mastrið sem átti svo að koma í mars, jæja Danir eru búnir að fresta því um mánuð. Svei attan. Borgaði mastrið í des.

Ferðasaga 25. nóv í Snarfara

ON 17. NÓVEMBER, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Það verður sögustund miðvikudaginn 25 nóv. í Snarfara og öllum opin. Lýsingu er að finna hér fyrir neðan. Þeir sem hafa lesið söguna á þessum síðum þekkja svo sem til en það verða þó einhverjar viðbætur og ósögð ævintýri látin flakka. Fundurinn er öllum opin og byrjar 19:30 í félagsheimili Snarfara og það verður heitt á kaffinu. (Nýtt: Sigurgeir Kjartansson, læknir og einn af eigendum Mílunnar, ætlar að eiga fyrstu 15 mín og lesa upp úr bók sinni „Sigurgeir skar’ ann“. Ekki ólíklegt að það tengist eitthvað skútumálum. Bók hans verður síðan til sölu á lægra verði en í bókabúðum eftir upplestur)

Haustið 2014 var keypt eldri 29 ft. skúta rétt norðan við Bergen í Noregi. Henni var síðan siglt yfir hafið sumarið eftir svokallaða ” eyjaleið ” til Íslands. Ferðin endaði síðan í Snarfarahöfn sem sumir vilja meina á sögulegan hátt. Þeir félagar ætla að lýsa ferðinni í máli og myndum. Allir eru velkomnir á þessa sögustund í Snarfara og er áhugaverð þó ekki fjalli um gyllta sjávarströnd, sól og kókoshnetur heldur meira húfu og vetlinga.

ICC skírteinið komið heim

ON 10. OKTÓBER, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Til lukku Samgöngustofa en ég sé að núna er skírteinið til 10 ára en ekki 5 ára eins og síðast. Hafði að vísu merkt við úthafsréttindi í umsókn minni en þau hafa líklega litið svo á að ég hafi x-að í vitlaust box því engin hafði samband til að spyrja mig nánar út í það. Er því með heimild fyrir „takmörkuðu farsviði“ (50 mílur) eins og áður. Ég sigli samt, vilji ég lengra og teysti mér til og dettur ekki í hug að spyrja kóng né prest nema þá helst eiginkonuna. Hún ræður auðvitað. Væri  gott  ef Siglingaskólinn yrði endurvakin og farið dýpra í siglingafræði, öryggismál og meðferð báts og tækja. Ég myndi mæta þó ég telji mig hafa sæmilega þekkingu og nokkra reynslu. Fræðsla og aftur fræðsla er málið. Engin með sæmilega vitglóru í kollinum fer bara af stað með illa vanbúin bát og litla eða enga þekkingu í langa og erfiða siglingu. Ef svo er þá myndi hvort sem er reglugerðir ekki stoppa viðkomandi.En þetta er jú allt dálítill þykjustuleikur, dulin skattinnheimta. Hagsmunaaðilar margir og þjónar að hafa þetta í þessu helsi.  Dálítið eins og nýju fötin keisarans. Ég þekki engan á skútu sem hefur nokkurn tíma verið stoppaður og spurður að einu eða neinu. Rétt rúmlega helmingur seglbáta (skráðar) sem hafa gilt haffæri skv. upplýsingum sem ég fékk frá Samgöngustofu og vann úr. Hlutfall vélbáta (skemmtibáta) með gilt haffæri en minna.  (tölfræðin er neðst á síðunni-smellið á þennan hlekk)

Hitt og þetta

ON 21. SEPTEMBER, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGE2 ATHUGASEMDIRBREYTA

Var að sækja mér læknisvottorð til Samgöngustofu vegna endurnýjunnar á skemmtibátaskírteini. Gildir í 5 ár.  Ef ég væri á bát undir 6 m gæti ég n.b. siglt  sinnisveikur, með plattfót og missíða handleggi, yfirvikt eða  horrengla eða hvað veit ég. Það myndi engin amk spyrja mig neins og þyrfti ekki læknisvottorð. En dálítið fyndið og ítarlegt verður að segjast.  Bæði heyrn og sjónmæling, lungu, hæð og þyngd, púls og öndun og almennt heilsufar. En fyndnastar eru eftirfarandi kríteríur:

Höfuð og háls   eðlil.   Útlimir  Handleggur eðlil,   Fótleggir eðlil.
og svo….Eftir því sem næst verður komist í sögu og við skoðun er umsækjandi ekki með geðsjúkdóm, ofdrykkju- eða vímuefnavandamál o.s.fr. eða annan þann sjúkdóm er stefnt gæti skipi og skipshöfn i hættu vegna stöðu hans

Veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta yfir bullinu. En þetta er bara viðbót við aðra vitleysu kringum þessi skemmtibátamál. Held að tíma mínum og peningum og tíma læknisins væri betur varið í eitthvað annað. Gleymdi að taka fram að það virðist vera sömu kröfur til endurnýjunnar skemmtibátaskírteinis og atvinnuskírteinis.
Ökuprófið mitt gildir hins vegar þar til ég er sjötugur. Ég ek á hverjum degi.

Vídeó á youtube og tvær athugasemdir að lokum

ON 29. JÚLÍ, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Setti inn vídeó frá ferðinni frá Djúpavogi og heim á youtube ef einhver hefur áhuga á að sjá

Annað sem mig langaði að taka fram er að sjálfstýring (rafmagns) hættir að geta almennilega stýrt sjálf þegar vindstyrkur er orðin meira en 10 metrar. Þýðir að þá þarf að hanga á stýrinu sjálfur(auðvitað mism. eftir græjum).  Þetta þarf að hafa í huga við skipulag við langferðir ef einn er t.d. um borð. Þá er vindstýri mun öruggara.

😉

Hitt er þetta með svefnin. Ég las mig nokkuð til með þetta áður en ég fór frá Færeyjum til Íslands. Málið virðist vera og rannsóknir sýna það að ef einn er að sigla og hann vill halda vakt og vera með sæmilega rænu til þess (og treystir ekki á Ais eða aðrar græjur -eða það er bilað) er að passa sig á að ná ekki svokölluðum REM svefni eða djúpsvefni. Það er mismunandi milli einstaklinga hvar þau mörk liggja en það er ólíklegt að þú náir þessu stigi á 10 til 20 mínútum.  Þess vegna m.a. stillti ég mig af á þann tíma og gekk upp. Þetta er auðvitað ekki nægileg hvíld en sleppur einhvern tíma.  Svo koma ábyggilega niðurstöður annarra rannsókna síðar og sýna fram á að þetta er algjört bull 

Kominn til Eyja

ON 10. JÚLÍ, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Úff….er það lýsingarorð? Hvernig stigbreytist það þá? Amk er ég þá úffastur. En líklega er það atviksorð eða bara upphrópun. Maður er orðinn ryðgaður og við aldur.

En eeeeeeerfið ferð svona eins og Bubbi myndi segja það. Byrjaði með brasi og endaði í andskota nú í dag með stöðugann vindhraða af austan upp á 14 m og meira í hviðum. Mér finnst það vel í lagt. Var mjög nálægt landi en smábyrjaði að hvessa við Mýrdalssand og einna mest rétt austan við Eyjafjallajökull.  Þegar skútan er farinn að „surfa“ 8 til 10 hnúta á 1 til 2 metra kröppum öldum er tími til aðgerða. Var bara með rifað stórsegl en það var of mikið.  Lagði upp í vind en tókst illa að ná því niður. Lét það vera hálf dregið niður. Frekar segl en maður. Bleðill af rúllufoku uppi í staðinn og fór aldrei undir 4.5 hnúta og upp í 8. Við Eyjar var bara krappar stórar öldur og kembdi hressilega úr þeim. Aftur úff!  Kom inn af austan og á milli Bjarnar- og Elliðareyjar. 

En sólarhringurinn áður einkenndist af logni, mótvindi og bilun á alternator þannig að ég gat eða þorði ekki að keyra vél a fullu gasi. Svaf lítið og því þreyttur. Kaupi það sem þarf á morgun. Þannig já, ymist í ökla eða eyra. En ég s.s alltaf tuðandi. Heim annað kvöld 1.5 sólarhringur?  Líklega.  Hugsunin á leiðinni var…úff ég er hættur, en núna…ja má skoða hitt og þetta en ekki spenntur í dag fyrir neinu nema notalegheitum þar sem ég vel veðrið við Faxaflóann. Þarf ekki og þurfti ekki að sanna neitt. Been there done that.

image
image

Til Eyja

ON 8. JÚLÍ, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Kom til Djúpavogs um kl.16 í dag og hef haft í nógu að snúast. Keypti 30 lítra af olíu en átti fyrir tæpa 60 lítra. Eyddi litlu frá Færeyjum og hingað. Mest síðustu 30 mílurnar. Er því með um tæpa 90 lítra. Sá hvað var að rúllufokkunni. Ekki stórmál en get ekki gert við það hér og nú en get komist i kring um það ef svo má að orði komast. Ætti að vera í lagi. Verra var að 8 mm bolti sem hélt alternatornum var brotinn. Spurði stráka sem voru í stærri bát hér hvort þeir ættu eitthvað slíkt. „Nei því miður, og vorum að koma frá Egilstöðum þar sem vorum að kaupa ryðfría bolta en stærri, hér fæst ekkert slíkt“.  En er með  6mm bolta og ró og vona að haldi. Á eitt aukasett. Geymslugeymirinn var nær tómur og það var ástæðan fyrir því að díselhitarinn startaði sér ekki. Er að hlaða hann i töluðum orðum. Veðurspáin hafði farið versnandi en lítur nú skár út. Á þó von á nokkrum stuttum hvellum 12 metra á sek en vonandi slepp ég við það. Líklega ekki. En stefnan í fyrramálið á Eyjar og bæti hér við eins og ég nenni,ef ekki á meðan þá stutta ferðasögu þegar ég næ landi.

Líklega gluggi frá Djúpavogi

ON 5. JÚLÍ, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Nú er líklega gluggi yfir hingað til Reykjavíkur. Panta því, ef stenst.  Ferð til Egilsstaða á þriðjudag og svo rúta þaðan  kl. 13 til Djúpavogs. Sigli ef allt gengur að óskum, snemma á miðvikudag. Annars merkilegt og hlýtur að vera Djúpavogsíbúum hvimleitt, sérstaklega þeim sem starfa við ferðaþjónustu hvað ferðir þangað eru eitthvað erfiðar. Ég ætlaði nefnilega í síðuðstu viku því þá var gluggi. Fór inn á flugleiðarvefinn og ætlaði að panta far en það var ekki fyrr en um kl.15  þann dag sem ég ætlaði að fara og þá þyrfti ég að bíða til kl 13 daginn eftir  til að ná rútunni. Þá var ég búin að missa af lestinni veðurfarslega. Eina rútuferðin er kl. 13 frá Egilstöðum og lendir í Djúpavogi um 16:30 ef ég man rétt.  Annað var eiginlega ekki í boði og flug með Erni (Höfn) og rúta þaðan var ekki að ganga upp því það var ekkert sæti laust þennan dag. En ekki við ráðið og ekki hægt að amast við neinum nema mér sjálfum fyrir að hafa ekki athugað þetta fyrr.

Vefsíða veðurstofunnar var niðri meira eða minna í gær. Nú er hún komin upp en vandamálið er að þeir eru tvísaga um veðrið. Skoði maður atlandshafsspána og sjóveður er eitthvað allt annað í kortunum og mun verra þ.e mun meiri vindur en skoði maður viðkomandi landshluta sem sýna amk 30 til 50 mílur út þarna við suðurströndina.  Atlandshafsspáin er að sýna þetta 6 til rúma 12 metra meðan hin sýnir vart meira en 8 metra.  Ölduspáin er viðráðanleg sýnist mér sé hún rétt eða ölduhæð mest 2 metrar.

En svo stendur heilt hífasett í kúnni.  Erlendar spár eru eiginlega að sýna aðeins verra en sést á spám okkar. Bæði vindhraða og hvar hann liggur. Hverju á maður að trúa?  Líklega eitthvað meðaltal af þessu öllu saman!?  En bíð eftir einni spá í viðbót og panta ef mér sýnist það vera í lagi.  Sigli einn.  Hlýt að vera erfiður í samskiptum.

Skipti þessu í tvo parta. Djúpivogur til Vestmanaeyjar sem er um 200 mílur og Vestmannaeyjar til Reykjavíkur sem eru held ég um 120 mílur eða samtals um 320 mílur. Þetta er því alvöru ferð. Ef ekki gluggi yfir röstina þá bíð ég í Eyjum eða einhverri höfninni þarna og helst þá Grindavík. Svefn verður svona lotusvefn eins og síðast og tekur mið af veðri og öðrum aðstæðum.   En bon voyage á sjálfan mig…

Kominn

ON 26. JÚNÍ, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Í höfn á Djúpavogi. Þrir sólarhringar á siglingu og var búin að vaka 18 klst áður en ferðin hófst. Nánast rennireið allann tímann. Djöfull er ég þreyttur. Segi betur frá síðar.

Jæja.  Gekk vel verður að segjast og spáin stóðst nánast upp á meter per sekúndu. Þegar ég kom til Þórshafnar tóku þeir á móti mér félagar Leivur og Egil frá bátaklúbbi Þórshafnar. Þeir höfðu geymt fyrir mig lykla af skútunni. Þeir keyrðu mig í verslun og aðstoðuðu mig á alla lund. Ég bað þá um að benda mér á hafnarskrifstofuna í Þórshöfn því ég þurfti að greiða gjöld vegna skútunnar. Þeim fannst það fráleitt. Kostar um 100 Færeyskar (dkk) sólahringurinn þannig að þetta var orðin umtalsverður peningur eða um 1600 dkk.  Leivur hringdi í hafnarskrifstofuna og vildi að þeir felldu gjöldin niður“ hafði nú verið þannig að ,maðurinn hefði komið inn í vitlausu veðri og hefði ekki getað annað en skilið hana eftir vegna veðurs o.fl“  en gekk eitthvað brösulega að ná samningi við viðkomandi. Einhver sem þeir þekktu ekki nógu vel. „Förum með þér“ sögðu þeir „þetta er ekki að ganga“. Ég sagði nú að þetta væri í lagi því sannarlega hefði báturinn verið þarna þennan tíma og ég gert mér grein fyrir að því fylgdi kostnaður. „Nei“. Endaði þannig að ég greiddi 800 Færeyskar/dkk fyrir eða 50% afsláttur. Heiðursmenn og höfðingjar.  Já og smáinnskot. Færeyingar kalla okkur Íslendinga „já-ara“ því við segjum í tíma og ótíma „já“ í öllum mögulegum samræðum.  Þeir segja líka að íslenska sé bara illa skrifuð Færeyska.

Um kvöldið skoðuðu þeir síðan straumkort af svæðinu og mér var ráðlagt að fara úr Þórshöfn á miðnætti sem ég og gerði. Ég sigldi í suður frá Þórshöfn samhliða Nolsoy og síðan tekið fram hjá nesi sem heitir Kikreboe -noes og þar var töluverð röst sem ég þurfti að fara yfir og svo beygt til norðvesturs. Ég sá strax að þarna var mikill straumur og aldan sem kom utan af hafi þarna inn í þrengslin hækkaði mikið en var nánast slétt og spegill því það var engin vindur að ráði. Samt brotnaði og frussaðist úr öldutoppunum í hæðstu hæðum. Ég er að tala um ölduhæð 2 metra a.m.k.   Ég stakk mér inn og aldan greip mig strax. Þvílík ferð á sjónum ég hlýt að vera á margra mílna hraða. Leit á mælinn…..1 hnútur. Þannig gekk það næstu 5 klst í barningi brasi og brölti 3,8 sjómílur til eyjarinnar „Hestur“. Þannig að annaðhvort hafa þeir félagar snúið þessu alveg á hvolf eða ég ekki tekið nógu vel eftir sem er líklegra. Stakk mér þarna inn í fallega höfn um 5 leitið og svaf til kl. 7 og stakk mér þá aftur út. Búmm, um og yfir 7 hnúta ferð þegar straumurinn geip mig og núna með sér en ekki á móti og lítill vindur framanaf.  Ferðin gekk vel. Var með nánast stöðugan vind á stjórnborðshluta skútunnar.  Fór nánast aldrei yfir 8 metra vindhraða en þá kannski mest 10 metra en þá bara tímabundið. Sjálfstýringin var á nær allann tímann. Án sjálfstýris útbúnaðar er þetta ekki hægt. Svefn var ca. 1,5-2 klst á sólarhring þessa 3 sólarhinga og teknir í litlum dúrum 10-15 mínútur í senn. Sá 3 skip á leiðinni og eitt nánast í fangið en hafði einmitt þá ákveðið að dúra einu sinni í 20 mín. Þegar klukkan hringdi og ég stökk upp til að skoða kringum mig sé ég að ég á í beina stefnu ca. 2 km í stórt rannsóknarskip sem var kjurrt.  Eftir það stytti ég tímann í 15 mínútur sem var svona viðmiðið hjá mér ef sjóndeildarhringurinn var auður. Ais dótið virkaði ekki hjá mér því að straumbreytirinn fyrir Pc vélina hafði skemmst. Gat því ekki kveikt á henni. Kort, áttaviti og navsonic í símanum voru því mín tæki ásamt Garmin handheld etrex tæki.  Vissi að mjög vondu veðri fyrir sunnan mig sem þokaðist norður. Hafði hugsað mér að fara á Höfn væri það í lagi en tók svo ákvörðun um að gera það ekki þegar ég var í Þórshöfn  og hafa frekar vaðið fyrir neðan mig og stefna norðar. Stefndi þess í stað á Djúpavog. Það var kórrétt ákvörðun. Lenti þar um 2 leitið um morgunin föstudaginn 26 júní og ferðin því tekið um 3 sólarhringa. Heildarlengd ferðarinnar var eitthvað rétt tæpar 300 sjómílur.  Nýsofnaður þegar tollvörður kíkti í skútuna. Ég þvaðraði bara og ruglaði svona nývaknaður og dauðþreyttur. Skrifaði þó undir þar sem hann bað mig um og færði inn samviskulega í dálkinn sem taldi tóbak og áfengi eftir hans fyrirmælum. Tóbak=10 sígarettur. Öl. 10 litlar dósir.   En notalegur strákur og fór vel á með okkur þrátt fyrir að ég væri dálítið vankaður.   En nú er skútan á Djúpavogi og annað eins eftir og rúmlega það í mílum. En er með höfn á leiðinni (200 mílur í Vestamanneyjar) og land á stjórnborðshlið á leið hingað í Snarfara Reykjavík. Spáin slæm alla þessa viku þannig að ég bíð. Hlakka til að þessu ljúki. Er búið að taka helst til of langann tíma.

Enginn teljandi óhöpp en rúllufokkan er að gera mér grikk. Mjög stíft að draga inn og út. Eitthvað ekki rétt.   Díselhitarinn fór kvöldið á Djúpavogi þ.e. nær ekki að starta sér. Skoða það þegar heim kemur.  Set hér þrjár myndir inn og nei ég er ekki á fötunni þarna grettinn,grár og ljótur heldur er bara blessuð sólin að angra í mér augun, jafnvel þó hún sé að skýjabaki.

20150623_142145
IMG_2163
20150625_161237

Sigling heim

ON 21. JÚNÍ, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGE3 ATHUGASEMDIRBREYTA

Ég á flug til Færeyja á morgun. Ef skútan og fylgihlutur verða í lagi og spáin helst þá ætti ég að vera komin austur á Djúpavog eða Höfn seint næsta fimmtudag. Ætla að reyna að vera lagður af stað frá Færeyjum fyrir miðnætti á morgun. Spáin lítur ágætlega út í augnablikinu þó það sé nánast stormur á báðar hliðar sérstaklega sunnan við mig en allhvasst norðan.

Ég skal viðurkenna að ég er eiginlega búin að vera í kvíðakasti yfir að þurfa sækja skútuna og sigla henni til landsins. Hellist yfir mann og ónotalegt. Þetta var dálítið skuggalegt síðast vægast sagt og það situr í manni. Ætla ekki að vera að reyna að leika hetju eða segja að þetta hafi ekki verið mál. Læt það eftir öðrum töffurum.  Nóg af þeim. Er aðeins rórra núna líklega vegna þess að ákvörðunin hefur verið tekin og verkefnið að byrja. Maður einblínir á það.  Sigli einn. Það er ákveðin áskorun. Hef svo sem siglt einn áður en ekki í marga sólarhringa. Mest 36 klst í einni lotu og þá án þess að sofna. Var ekki sniðugt og langar ekki að leika það eftir aftur. Núna er planið smá hvíld í ca.15 til  20 mín í hvert skipti samtals nokkra klst á sólarhring.  Ais dótið verður þá í gangi til að vara mig við ef skip nálgast of mikið og sjállfstýring á. Verst hvað þetta eyðir í rafmagni.  Næ ekki fullri hvíld en nægilegri komi ekkert meiriháttar upp.  Þannig að ég vona að veðurfræðingar hafi spáð rétt.  Set kannski eitthvað hér inn eftir að ég kemst í höfn. Ætla að reyna að vera duglegri við að taka myndir.  Nú hugurinn er og verður þarna úti en einnig heimavið. Þar bíður fólk sem stendur ekki á sama og er gagnkvæmt. Það er gott og líklega besta veganestið.

Veðurfræði

ON 18. JÚNÍ, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Kunningi minn sagði mér að eitt sinn hefði hann og bróðir hans verið að íhuga að stofna fyrirtæki sem myndi sérhæfa sig í veðurspám. Tilkostnaður væri lítill og spáin yrði framkvæmd með hlutkesti.

Ég hef s.s. sjálfur sagt að veðurfræði gæti verið atvinnubótavinna því það er ekkert að marka hana hvort sem er. Auðvitað er þetta bull og án markvissar veðurspár og vísindastarfa þeirra sem við það vinna værum við í vondum málum. Sama veðrið en verri málum. Stendur annars á miða á  korktöflu Snarfara „spáin var rétt en það var veðrið sem var vitlaust“.

En fyrir svona kalla eins og mig sem er að hugsa um að sigla frá Færeyjum til Íslands er þetta bölvaður höfuðverkur. Nú síðustu vikuna hefur spáin sýnt tvisvar góðan glugga yfir og síðast var það í gærkvöldi. Ég geri aðeins meiri kröfur til veðurs til þessarar siglingar en þá síðustu því það lítur út fyrir að ég sigli einn. Síðast í gærkvöldi var gluggi og ég eins og í fyrra skiptið búin að skoða farmiða til Færeyja og undirbúa að gera mig klárann. Beið samt fram til morguns þó ég viti að farmiðinn hækki í veldisvexti í verði  á meðan. Nei, á tæpum 8 klst er eitthvað allt allt annað veður í kortunum en hafði verið spáð nokkrum klst fyrr og vindhraðinn sem náði varla að sleikja mikið yfir 8 metranna að sýna vind allt að 16 m á sek. Hvimleitt og kostnaður fellur daglega á skútuna þar sem hún er geymd í Þórshöfn:).  En svona gengur það og við hér á norðurhveli ættum s.s. að vera vön þessum tiktúrum í veðrinu. Á meðan flakkar maður á milli veðurkorta og óskar eftir“ hæðum“ sem víðast…….

Aðeins um öryggi og gervihnattarsíma

ON 10. JÚNÍ, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Engu á að spara þegar kemur að öryggismálum!

Þetta er auðvitað satt og rétt. Hins vegar eru öryggistæki mjög dýr og oft er það nú þannig að í skemmtibátasiglingum er verið að sigla stutt og kannski ekki þörf á öllum þeim tækjabúnaði sem til er til öryggis. Svo er auðvitað gæðum heimsins misjafnlega skipt. Ég hef sagt frá því áður að ég fékk leigðan neyðarsendi frá Landsbjörgu í ferðina sem mér finnst frábær þjónusta.  Ég leitaði hins vegar mikið af gervihnattarsíma án árangurs. Landsbjörg lánar ekki slíkt og ég veit ekki um neitt fyrirtæki hér á landi sem gerir það.

Þetta er frekar slakt ástand. Víðast út í heimi er hægt að fá leigða síma með fyrirframgreiddu korti eða að viðkomandi greiðir eftirá. Aðili frá Landsbjörg tjáði mér að þessir símar hefðu verið leigðir hér á landi en vandamálið hefði verið það að reikningur vegna notkunnar kom alltaf löngu síðar og erfitt með að rukka.

Tryggingarfélög ættu auðvitað og fleiri að leigja svona út. Jafnvel Landsbjörg. Það er ekki erfitt að leggja fram tryggingu áður en ferð er hafin. Greiða t.d. fyrirframkortið í símanum og svo gert upp þegar og ef síminn hefur verið notaður hvort sem það er vikum eða mánuðum síðar. Gegnum þessa síma er t.d. hægt að fá nýjustu veðurfréttir.Að  kaupa allar mögulegar og ómögulegar græjur er einfaldlega of dýrt svona fyrir almennan launamann ætli þeir lengra og reyndar þjóðhagslega hagkvæmara að kaupa þetta til útleigu hvort sem er tryggingarfélög, siglingafélög, innflytjendur eða hvað veit ég.

En set hér nokkrar myndir úr túrnum. Reiknaði þetta lauslega saman og þá er siglingin frá Manger Noregi til Þórshafnar í Færeyjum með krókum og stoppum a.m.k. 530 sjómílur.  Lýsi svo eftir gervihnattarsíma til leigu því ég vil helst ekki sigla án hans í leggnum frá Færeyjum til Íslands eftir nokkrar vikur. Hægt að hafa samband við mig hér.

Aðeins um myndirnar. Fyrsta myndin er ég og sonurinn, spurning hver er hvað. Syðsti oddi Hjaltlandseyja og sauð og kraumaði þar. Strákurinn að setja upp Íslenska fánann á leið til Færeyja. Tónleikar meðlima í húsakynnum bátaklúbbs Leirvíkur, frábær aðstaða (bar, sturtur, þvottavél, þurkari og wc-hvað þarf meira?) og stórkostlega skemmtilegt kvöld þar sem smá týndust inn meðlimir/tónlistarfólk og duttu inn í söng og spil öðru hvoru (keltnesk lög). Urðu 15 þegar mest var og áheyrendur líklega 7 eða 9 manns. Mynd þarna af  „Vegvísi“ eftir að við límdum það á bátinn.  Reipið til að rifa stórseglið slitnaði tvisvar og þarna er það eftir seinni viðgerð en nokkru áður hafði verið mjög hvasst. Skútan í Bergen og síðasta myndin af vini mínum og syni. Lítur allt frekar sakleysislega út.

20150528_215735
20150530_194429
20150604_222556
20150529_204910
20150530_132041
20150601_094858
20150605_041949
20150524_205448_2
20150527_203131

Færeyjar

ON 6. JÚNÍ, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGE1 ATHUGASEMDBREYTA

Komnir til Færeyja. Byrjaði í barningi og krusi frá Hjaltlandi en fengum svo rjómablíðu í ca. hálfan sólarhring eða þar til við áttum 40 mílur eftir. Þá skall á austan eða austsuðaustan hvassviðri í bakið. Var ekki ljúfur lens. Skútunni lokað og einn úti í skuti bundinn á bæði borð sem stýrði inn. Veit ekki hvað náði í vindstyrk en háar krappar öldur sérstaklega síðustu 10 mílurnar og brot. Það var amk slökkt á rafmagnsmyllum Færeyinga sem maður sá á leiðinni inn. Líklega vegna vindhraða þó ég þori ekki að sverja að það hafi verið ástæðan að sjálfsögðu og til að auka gleðina var grenjandi rigning.Algjör ruddi. Stórseglið var niðri og aðeins ca. 2 fermetrar út af rúllugenúunni. Hraðinn var 6 til rúmlega 8 mílur þegar alda var að lyfta mann upp og það þurfti að taka á stýrinu á móti til að missa skútuna ekki á hlið þegar aldan brotnaði í toppnum og skriðið byrjaði niður öldudalinn.

Nú í fallegri höfn í þórshöfn og engu logið um gestrisni Færeyinga. Hvílík þjóð eins og hefur margoft sýnt sig. Notum aðstöðu bátaklúbbs Færeyinga og bara spurt „hvað þurfið þið“ ja,alternatorinn hefur gefið sig.“ ekki mál við.reddum því“.  Getum ekki keypt kort í rafmagn á bryggjunni “ hér, notið mitt“. : Erum í vesenni með geymslu á bátnum…ein hringing…málinu reddað. Snillingar. En flug á mánudag heim og svo sigli ég líklega einn heim þegar spá er góð á næstunni eða hvað veit ég.

20150607_110013

Til viðbótar: Höfum eðlilega lent í margvíslegum uppákomum fyrir utan óhagstætt veður. „Reefing“ reipið slitnaði tvisvar úti á ballarhafi. Misstum reipið sem dregur inn rúllufokkuna á leið til Hjaltlandseyja í skítabrælu. Ekkert annað að gera en að „heave to“ (íslenska orðið??) með vél og stórsegli og skríða framá og redda. Misstum olíu út af gír en vorum í ágætu veðri að sigla niður með Hjaltlandseyjum og bættum á. Vatn flæddi úr tanki inn í bát og í gær þetta með alternatorinn. Þannig ýmsar uppákomur og var fleira. Stærstu mistökin í þessari ferð og ég skammast mín fyrir er að hafa ekki haft björgunarbát frá byrjun en hann var keyptur í Hjaltlandseyjum. Hitt sem ég hefði óskað mér er að hafa tæki til að nálgast veðurspá úti á rúmsjó. Bara til að vera frekar viðbúin þvi það er farið að draga verulega úr áreiðanleika eftir 2 til 3 daga eins og við sannreyndum.

image

Myndin hér að neðan er svo að hafnarplássinu (Skeld) á vesturströnd Hjaltlandseyja þar sem við biðum eftir glugga til siglingarinnar til Færeyja . Mjög þröng innsigling og við erum að tala um metra er þarna innst inni í firðinum en sést því miður ekki á þessari mynd. Er aðeins sunnar eða til hægri við rammann. Áttum þar notalegar stundir. Selur buslaði í botni fjarðarins, hérar, sæotrar, blessuð krían, sólin leit inn af og til og fleiri skemmtilegheit. Húsfrúin á bænum sem sér um marínuna gaf okkur heimabökuð brauð til ferðarinnar til Færeyja og höfðu meira að segja samband síðar til að athuga hvort við hefðum nú komist heilir og höldnu til Færeyja. Ég var keyrður í verslun og hvaðeina. Vesen með internet þarna að vísu, en-þarna eru einnig húsakynni bátaklúbbs héraðsins.

Ferðin hingað til

ON 2. JÚNÍ, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

image

Prófa  að setja hér inn gegnum símann. Ellefu dagar og við enn í Hjaltlandi og höfum ekki komist lönd né strönd. Búið að vera lægðargangur og hvasviðri allt í kring allt frá byrjun ferðar. Siglingin frá Noregi til Hjaltlands söguleg og eitthvað sem enginn okkar langar til að endurtaka. Enduðum nyrst á eyjunum í stað Leirvíkur enn þangað sigldum við daginn eftir og notuðum tímann í viðgerðir og afslappelsi í frábærum  húsakynnum siglingaklúbbs Leirvíkur. En aftur af ferðinni yfir. Allt á móti  í mjög stífri vestanátt og um tíma gerðum við ekki annað en að halda sjó i mjög hárri og krappri öldu.  Innréttingin bakborðsmegin  gekk niður í látunum og ekki stætt í fletum. Ýmislegt komið upp á varðandi segl og vél en tekist að gera við jafnóðum og allt í fína. Erum nú bunir að þoka okkur yfir á vesturströndina og lítur út fyrir þröngan glugga til Færeyja í nótt. Ætlum að grípa hann og svo skútan geymd þar þangað til viðrar til Íslands. Slíkt er ekki sjáanlegt í kortum. Flug heim á mánudag og skútan sótt síðar þegar viðrar.

Hættur í bili

ON 26. APRÍL, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Jæja, eftir yfirlestur síðustu pósta þá finnst mér sjálfum þetta vera orðið frekar raka-, líf-,  og litlaus frásögn. Læt hér því staðar numið í bili en mun að öllum líkindum setja myndir hérna inn og texta af ferðalaginu þegar það hefst í lok mai. Ef ég bæti einhverju við næstu vikurnar þá verður það í tengslum við annað á síðunni t.d. myndbönd eða uppl. um siglingar eða hvað veit ég. Vil þó koma því á framfæri að Samgöngustofa hefur móttekið tillögur okkar Snarfaramanna og formanns SÍL um breytingar á reglugerðum kringum skemmtibáta (markmið okkar að létt verði á þeim reglum) og verður forvitnilegt að sjá hvaða kemur út úr því.  Fyrir þá sem eru að hugsa einhver (siglinga) ævintýri en eru hikandi þá endursegi ég bara setninguna sem markaðsfrömuðir Nike hönnuðu svo listilega….Just do it!   Maður er mengi þeirra ákvaðanna sem maður tekur. (bætt við 21 júní. Dreg ekki í land með þetta…en, gefðu þér og hafðu nægan tíma og það þarf að skipuleggja vel. Það er held ég lykilatriði í velheppnaðri siglingaferð)

Sendi svo fyrirspurn til Samgöngustofu, þó ég vissi s.s. svarið fyrirfram, um  hvort hægt væri að fá bráðabirgðahaffæri á skútuna meðan henni yrði siglt yfir. Nei,og til þess þyrfti að senda starfsfólk stofnunarinnar út til að skoða gripinn og gefa út skírteini í framhaldi. Hann heldur því sinni norsku skráningu og siglt verður undir norskum fána.

Var í Glasgow um daginn og keypti þar léttabát, Seago 2.30 (slatted floor) á 230 GBP. og hann bíður heima. Einnig talstöð Cobra F80 á 120 GBP og svo „automatik“ Seago björgunarvesti 180 N, sem var klúður því ég bað um með „harness“ en þegar heim kom þá var ljóst að ég hafði ekki fengið slíkt belti. En á s.s. harness sem verður þá innanundir. Á eftir að kaupa eitt kort (ca. 10 þ. ískr) og svo borga rafmagn fyrir bátinn úti(ca.15 þ. ískr) og þá er vonandi kostnaður búin annar en sem tengist ferðinni beint þ.e. kostur og olía( og leiga á neyðarsendi og gervihnattasíma sem ég tel mig hafa landað áætlað ca. 30 þ. ískr) .  Þetta er að verða ágætt og sjóðurinn sem lagt var af stað með í upphafi eiginlega uppurinn og líklega rúmlega það.

230
makethumbnail

Stöðutaka

ON 26. APRÍL, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Jæja, tæpur mánuður og það er alltaf eitthvað brölt. Vandamálið núna, sem ég nenni ekki að útlista nákvæmlega, er að við erum í dálítlu tímakapphlaupi þegar við komum til Noregs. Þýðir að það verður lítill eða engin tíma til að versla í skútubúðum í Bergen á föstudegi þegar við lendum.Vantar enn loftnet fyrir talstöðina sem ég keypti og neyðarblys í skútuna (sem verða vonandi ekki tendruð fyrr en á gamlárskvöld sama ár og þau renna úr gildi).  Allavega þá er loftnet almennt eitthvað á lengdina og stærð taskna sem í flugvélina fara styttri. Má ekki taka með neyðarblys.

Var að hugsa bráðabirgða lofnet aftan á handrið skútunnar (lágmark ca. 1.30 cm) en ekki upp í mastur því það eru engar festingar þar að ég held, vindhaninn flækist fyrir og vildi helst sleppa við að líma kapalinn við mastrið. Tek mastrið niður þegar ég kem heim og þræði loftnetskapalinn gegnum það þá. Svo erum við allir frekar lofthræddir og ég svona ef ég fer í það settlega, heldur þungur til að vera að láta draga mig upp í mastur. En er s.s. ekki búin að taka ákvörðun. Eggja bara og sendi strákinn upp, þvengmjór og lipur. Þetta er ekki nema 11m mastur og fínt útsýni þaðan;)

Á föstudagskvöldi verðum við upp í sveit og næsta sjoppa í 2 km fjarlægð. Bíllausir. Eftirmiðdag á laugardegi ef allt gengur að óskum og við/skútan ferðklár er gert ráð fyrir að leggja af stað og sigla suður til Björgvinar eftir ákveðnum krókaleiðum. Þangað yrðum við komnir á sunnudegi. Norðmenn nenna ekki að halda búðum mikið meira opnum en brýna nauðsyn ber til  og vilja frekar „hygge sig i hytten“ yfir helgina. þannig að þessu þarf að redda fyrr sem verður gert. Loftnet og neyðarblys þarna úti kosta ca.+ 25 þ. ískr.

Annars lét ég útbúa í gamni mínu 2 límmiða sem fara á sitthvorn kinnungin. Þetta eru galdrarúnir (Vegvísir) og til gamans gert.

Sendi svo fyrirspurn til Samgöngustofu, þó ég vissi s.s. svarið fyrirfram, um  hvort hægt væri að fá bráðabirgðahaffæri á skútuna meðan henni yrði siglt yfir. Nei,og til þess þyrfti að senda starfsfólk stofnunarinnar út til að skoða gripinn og gefa út skírteini í framhaldi. Hann heldur því sinni norsku skráningu og siglt verður undir norskum fána.

Óveður og tjón á skútum í Snarfara

ON 14. MARS, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Það var ekki fallegt um að litast niður í Snarfara áðan. Tvær skútur á hliðinni, og sú þriðja með brotið mastur.  Útleggjari við skútuna Hafdísi á A bryggju var komin á hlið. Ekki skemmtilegar hringingar í þá eigendur sem ég náði í.  Tók vídeó þegar vindurinn var að djöflast á bátunum í höfninni  og möstrin lögðust undan. Hér er óskemmtileg mynd sem sýnir ástandið um kl. 10 um morgunin.

20150314_094208

Neyðarsendir-pöntun og kostnaðarhugvekja

ON 25. FEBRÚAR, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Gekk frá pöntun á neyðarsendi við Landsbjörgu í dag. Var búin að segja frá því í öðrum pósti að slíkt kostar mig um 1200 kr. á dag. Þetta er auðvitað frábær þjónusta. Kaupi mér svo eigin síðar því það er skylda að hafa slíkt um borð. En hugsum málið. Neyðarsendir kostar ca. 80 þ. (kannski meira) og svo á 3 til 5 ára fresti er skipt um batterí og þau eru dýr. Deilum:  80.000/1200 eru ca. 67 dagar. Ég myndi giska á að þau skipti sem ég er að fara lengra en 20 mílur út frá landi á hverju sumri séu að meðaltali 7 dagar. Nokkuð öruggur með vhf talstöð með neðarsendi og síma 20 mílur út (mér finnst 20 mílur ágæt öryggismörk en bara í mínum haus).  Ef ég fengi að leigja mér neyðarsendi í þessi skipti í stað þess að þurfa að kaupa hann þá væri núllpunktur eitthvað um 9,5 ár, og auðvitað fleiri ár m.v. að það þarf að skipta út batteríum á nokkra ára fresti.  En ég myndi aldrei fá slíkt samþykkt við skoðun. Þarf að hanga um borð öllum stundum. Hvað þá með björgunarbát sem uppfyllir stöngustu kröfur (og krafa er gerð um í bát yfir 8 metra)  sem kostar líklega rúmar 300 þ. með öllu og svo tæpar 100 þ. krónur að meðaltali annað hvert ár í skoðunarkostnað ef hann fengist til leigu?  Það er umhugsunarvert. Ekki fyrir hvern sem er að komast í þennan skemmtibátageira og sport þó svo mörgum manninum dreymi um að eignast kopp. En þetta er bara hluti kostnaðar. En þá er auðvitað hægt að kaupa undir 6 metrum og fara hvert sem maður vill þess vegna árabát eða kayak eða eitthvað sem flýtur og engin spyr neins …….og kemur auðvitað engum við.

Set hér aftur inn link um samanburð við nágrannalöndin

Framundan í mars

ON 23. FEBRÚAR, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Að læra að sigla er dálítið eins og að læra að hjóla. Manni eykst kjarkur í hvert sinn. Þorir að fara hraðar, í verri veður  og reyna á hlutina meira og betur.  Ég man þó eftir tveimur skiptum sem ég hef tautað upp úr eins manns hljóði „þetta getur ekki endað vel“.  Bæði skiptin á leiðinni yfir Faxaflóann. Þetta átti sérstaklega við fyrir tveimur árum þegar ég fór í striklotu frá Flatey og í Snarfarahöfn.  Var orðin allt of þreyttur þegar veðrið skall á stuttu eftir að ég lagði inn á Faxaflóa og var þá búin að vaka nánast í sólarhring. Gerði helvíti hvasst (spáin sagði 12-13 metra en það var mun hvassara) og það er kafli á leiðinni þar sem aldan verður ansi brött og það myndast skaflar og brotnar úr. Hef lent í því áður en ekki svona mögnuðu. Það furðulega við þetta að áttin var norðaustan og af landi og ég bara 25-30 mílur úti. Þarna eru að vísu grynningar en ótrúlegt hvað aldan verður brött og há ekki lengra frá landi. Líklega var straumur á móti öldu einnig sem ekki hefur hjálpað til.  Nú eða ég bara soddan kettlingur. Var ekki þurr þráður á mér eftir þann öldudansleik. Fékk yfir mig nokkrar gusur í vatnsfötu- og tunnumagni þarna í skutnum. Vindurinn stóð nánast á hlið og maður rýndi fram undan sér á hverja einustu öldu til að bregðast við. Stundum sneri maður upp í aðra stund lagði maður undan en annars hélt maður bara striki og hélt sér fast. Fór að létta til sunnan við Hvalfjörð og svo var dúnalogn þegar ég var komin  út við Lundey. Gáraði ekki á sjónum. Annars er það nú að hljóðin í vindinum í mastrinu, stögum og öldunni auka stressið og líklega er maður að ofmeta ástandið og ölduhæð. En túrbátarnir eru góð sjóskip og Krían mín þoldi þetta vel og betur en ég. Var þar að auki með of mikið af seglum uppi og um tíma  sleppti ég fokkunni nánast lausri bara til að minnka seglflötinn. Var ekki með rifað í stórseglinu og engin leið til að gera það þegar var orðið hvasst. Maður lærir heilmikið á svona brölti eins og það á að“ rifa strax og þér finnst að þú ættir að rifa“ og ekki bíða. Ég glotti samt út í annað þegar ég kom í höfn og  opnaði lúguna og horfði niður í skútuna. Nánast allar skápahurðir höfðu opnast og allt lauslegt lá þarna á miðju gólfinu sem ég hafði ekki gengið sérstaklega frá…var eiginlega alveg ótrúlegt. Maður verður dálítið hugsi að þurfa að sigla við slíkar aðstæður í myrkri. Hef ekki lent í því og langar ekki sérstaklega til.

En þetta var óþarfa inngangur og langur. Núna í mars ætla ég að taka ferðafélagana í smá kennslustund í siglingafræðum, svona það helsta því ég vil að þeir séu jafnvígir og ég á kort og kompáss, gps og önnur þau siglingatæki sem eru um borð, þekki siglingaljós og helstu reglur, seglskip og stjórnun þeirra og jú….hvenær á að rifa. Vinur minn er svo sérfræðingur í öllu sem viðkemur vélum og hann segir okkur eitthvað um þær. Besta leiðin til að læra sjálfur er að kenna…..þannig er það nú bara.

AIS komið í gang og aðeins um GPS/Glonass

ON 18. FEBRÚAR, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Fann ekki loftnetið sem ég smíðaði um daginn. Bjó því til annað í gærkvöldi. Fann svo þetta eldra í morgun. Ég geng ekki alltaf á öllum. Tók rúmar 30 mínútur að útbúa. Kapall 50 ohm var klipptur niður í ca 10 búta, hver um 15 cm. 11cm með hulstri og til viðbótar 2 cm hvorum megin með berum vír til að tengja saman. Lóðbolti, teip og límbyssa. Loftnetin eru ca. 120 cm. hvort.  Eftir 1,5 klst fikt niður í Snarfara í gærkvöldi og viðbót í hugbúnaði (Virtual cable) þá small þetta saman. Vil þó meina að gamla lofnetið og hugbúnaðurinn séu nægileg. Það er einhver skekkja í SDR dótinu þ.e. ekki nákvæmlega tíðnistillt því ég náði AIS sendingunni aðeins undir lægri tíðninni. En því kominn með AIS móttakara fyrir túkall….;)

Geng svo frá þessu endanlega  þegar ég er komin með stillingarnar 100% og orðin öruggur með þetta. Með nýja hugbúnaðnum „Virtual cable“ losna ég við að heyra suð og brak úr tölvunni. Veit samt ekki hvort það gangi. Vil heyra viðvörun ef skip nálgast of mikið og þá þarf hljóð úr tölvunni. Nenni ekki að hafa bara sjónrænt þ.e. einhvern rýnandi í tölvuna á næturnar eða í þoku á nokkra mínútna fresti. Get s.s. alltaf svissað yfir í hljóðkort og hátalara.  Þarf einnig að skoða betur hvort skip sendi á báðum tíðnum eða annarri tíðninni í einu. AIS er sent út á tveimur tíðnum en ég „hlusta“/stilli á aðra í senn. Kannski hljómar þetta gáfulega í eyrum þeirra sem ekki þekkja til og það líti út fyrir að ég hafi vit á þessu sem ég hef ekki. Þeir með þekkingu brosa þá í kampinn yfir vitleysunni en vinsamlega eftir glottið að senda mér nothæfar upplýsingar.  Fór í Ikea síðustu helgi og er kominn með vatnsþétt, vindþétt og högghelt hús fyrir Android spjaldtölvuna (útiplotterinn).  Keypti einnig 5 m usb snúru fyrir GPS/Glonass usb tengið í fartölvunni. Smíða aðeins kring um það.  Allt svona smádót kaupi ég gegnum Aliexpress og kostar brotabrot m.v. hér heima. Kapalinn þennan 50ohm fékk ég í Computer.is (held að heiti það) 10 metra á góðu verði og góða þjónustu. Gps/Glonass er að keyra á GPS kerfinu og svo Rússneska, Glonass þannig að nákvæmnin er góð. Get haft hann inni í skútunni sem er úr „plasti“ en er enn öflugri úti. En hvað um það…nokkrar myndir og svo bendi ég á skrifin um samanburðin við nágrannalöndun sem tengist skemmtibátaumhverfinu. Væri gaman að heyra hvort aðrir hafi skoðun á þeim málum í hvora áttina sem er. En myndir…

20150217_222453
20150217_221027
20150217_173050

Fyrsta prufun með AIS dótið og byrjun á „skemmtibátaréttindaskrifum“

ON 4. FEBRÚAR, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Jæja var að föndra um helgina niður í Snarfara þar sem ég var á næturvakt og gekk ekki að ná inn AIS merkjum! Þannig er það nú. Hélt að ég næði með litla loftnetinu sem kom með SDR dótinu, AIS merkjum en þau voru einfaldlega of veik, svona ef ég er að lesa þetta rétt. Þannig að ég ætla nú að gera eina tilraun enn og smíða tiltölulega einfalt loftnet en með mun meiri móttökustyrk þ.e. eitthvað í þessum dúr. Ætla svo sem ekki að vera að spila mig sérfræðing í þessum málum. Er algjör sauður gagnvart þessum loftskeytafræðum en ágætur í að elta leiðbeiningar svona eins og ég hef úthald og þolinmæði til. En veit ég þarf að redda mér 50 ohm kapli sem ég fæ í næstu tölvubúð (má ekki vera 70 ohm eins og sjónvarpskaplar eru flestir búnir til úr) og smádót. Kostar ca. 200 kr. meterinn.  Set mynd hér neðst frá tilrauninni nú um helgina. En annars byrjaður að setja þetta saman um skemmtibátaréttindin og tekur smá tíma að koma þessu á leshæft, markvisst og skiljanlegt form. Sinni því eins og ég nenni. Er á sérstakri síðu á þessum vef og heitir „Um skemmtibáta……..

20150131_021919

Norskir vinir og svo þetta með réttindamálin. Jú og Ais

ON 29. JANÚAR, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGE2 ATHUGASEMDIRBREYTA

Úff, nenni varla að byrja á að skrifa um þessi réttindamál jafnvel þó ég hafi nokkuð sterkar skoðanir á þeim. Er aðeins byrjaður að taka þetta saman og líklega hendi ég þessu inn á „sér“ síðu á þessum vef svona þegar ég nenni. Dálítið vonlaust að vera að mala þetta einn út í rafrænt tómið.

Gömul tölva sem ég átti krassaði og hef því ekki getað prófað þessa Ais leið sem ég lýsti í einhverjum af fyrri póstum. En keypti gamla Dell fistölvu á 12 þ. krónur fyrir viku sem ég ætla með í ferðina. Hafði keypt GPS/Glonass usb á fáeina $ gegnum Aliexpress fyrir ca. mánuði og tengdi við hana. Algjört dúndur og ég er að ná sambandi við gervihnetti inni í íbúð þar sem Garmin gps ferðatækið nær engu. Setti líka inn hugbúnað til að hlusta á Ais sendingar sem eru að mig minnir á 160 til 164 mhz. Var búin að ræða það í fyrri pósti. Um helgina stend ég eitthvað vaktina niður á Snarfara en þá er tækifæri til að prófa búnaðinn og engin hús að trufla móttöku.

En mínir Norsku vinir eru komnir suðureftir og búin að kaupa sér skútu og eru að undirbúa og gera hana klára. Hef mikið gaman að fylgjast með þeirra ævintýri og þeir sem eru að slysast inn á síðuna mína myndu líklega einnig hafa gaman að vegna skútu- og ferðaáhuga. Set því hér inn tengil á vef þessa ævintýrafólks. Hérna er frétt úr bæjarblaðinu um ferðalagið þeirra og meira að segja Naverinn bregður þarna fyrir.

Kortaplotter DIY

ON 15. JANÚAR, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Geymi aðeins að ræða þessi réttinda- og aðstöðumál skemmtibátaeigenda en ætla að ræða annað.  Í ferðina verða tekin nokkur gps tæki og pappírskort. Einnig tölva með sjókortum og í símunum er einnig gps tæki og sjókort í mínum síma. Engin eiginlegur dýr og vandaður kortaplotter. Það er dýptarmælir um borð og einnig logg en ekki mikið meira af rafrænu „navigation“ dóti. (inns. 14 mars. gleymi að nefna að auðvitað er kompáss um borð og þekking til að nota hann)

Í reynd er þetta alveg yfirdrifið nóg af tækjabúnaði til þess að rata heim. Mig langaði þó til að bæta við og keypti mér ódýra spjaldtölvu frá Kína sem mig minnir að hafi kostað einhverjar 7000 kr með öllu. Mæli svo sem ekkert sérstaklega með henni þ.e. upplausnin og hraðin er ok en ekkert meira. Skjárinn er 12″ sem nægir.  En þetta á að vera svona „úti“ plotter og ég ætla að útbúa hylki, vatns- og högghelt sem tölvan mun hvíla í úti.  Þessi tölva er ekki með innbyggðu gps tæki þannig að ég tengdi við hana gamla Garmin gps ferðatækið mitt. Sótti sérstakt „app“ á „Play Store“ og borgaði 30 rúblur fyrir sem gerir spjaldtölvunni kleift að lesa Garmin gps upplýsingar. Síðan sótti ég Íslenska sjókortið sem er á símanum mínum og yfirfærði á tölvuna. Má hafa kortið að mig minnir á tveimur stöðum. Kostar 24 USD leiga fyrir árið.  Þannig að ég er komin með sæmilegasta plotter fyrir um 7.070 krónur ef ég er að reikna gengi 30RBU rétt.  Búin að testa og virkar fínt. Að vísu mun ég kaupa tímabundið kort fyrir siglingasvæðið Bergen-Ísland en það kostar vel undir 10 þ. krónum (inns. 14 mar, .kostnaði 18 evrur, Navionics í síma og android tölvu-Ísland/Grænland og nær yfir svæðið frá Hjaltlandseyjum til Grænlands. Gildir í eitt ár) . Líklega einskiptis og ekki ástæða til að vera fjárfesta frekar í slíku. En þetta virðist vera framtíðin þ.e. að þessar sérstöku græjur í bíl og báta eru að færast yfir í tölvur og síma. Einnig hugbúnaðurinn aðgengilegur eftir þörfum.  Þessi þróun er auðvitað löngu hafin.  En Hjaltlandseyingar sendu mér síðan skemmtilegan bækling um það sem ég ætti ekki að láta fara fram hjá mér fara þegar lent er þar. Svo gaf sonurinn mér flottan persónulegan neyðarsendi sem ég virkja áður en lagt er af stað (kostar nokkra 1000 kalla að virkja) og ég hugsa það þannig að hver sá sem er á næturvakt sé skyldugur til að bera á sér.

Vildi svo bæta við færsluna og það er ekki laust að fari aðeins um mann við svona fréttir  frá eiganda hafnarinnar „but we have had a rather stormy weather here lately, and electricity and telephone have in periods been down. But as far as I can see, your sailboat has not been damaged“.  Væri glæsilegt að þurfa að byrja á því að sækja hann brotin upp af hafsbotni í vor. 

20141230_132015
20141230_135056
20141230_132053
20141230_145542

Flugmiðar í höfn, reynsla og réttindi

ON 4. JANÚAR, 2015 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Gleðilegt nýtt ár.

Í kvöld hittist væntanleg áhöfn sem samanstendur af mér sjálfum, syni mínum og góðum vini. Dagsetning ferðar var fastsett og og flugmiðar keyptir til Björgvinar í lok maí á þessu ári.  Flugmiðinn er ódýr þegar pantað er svona langt fram í tímann. Kostaði 9.500 kr. allsber en þegar líða tók á bókunina tókst Norska flugfélaginu að klæða hann aukakostnaði. Ferðataska á mann kostaði rúmar 2000 kr. og að borga með visakorti en ekki einhverju Norsku korti kostaði einnig aukalega. Endaði í 12.500 kr á mann sem er þó ekki mikið.  Sonurinn hefur ekki mikla reynslu af siglingum. Hefur helst komið með í veiðiferðir á skútunni með byssu eða stöng. Þetta verður því eldskírn fyrir hann eins og svo sem fyrir okkur alla. Vinur minn hins vegar hefur nokkra reynslu af sjónum m.a. af varðskipunum, fiskidöllum og að ég tali ekki um hjólabátaútgerð í Víkinni sem er ekki fyrir nema hraustustu og hugrökkustu menn. Svo ótal ferðir á mínum skútum og eigin RIP bát þvers og kruss hér um flóann. Það er því ágætlega mannað.  En það er þetta með reynsluna.

Ég hef ekki stundað sjó í atvinnuskyni fyrir utan að sækja einhverntíma launalaust grásleppur og rauðmaga á lítilli trillu út í Skerjafjörð þegar ég var trítill. Lagt var út frá Grímsstaðarvör sem var manns annað heimili frá vori fram á haust.  Svo vorum við strákarnir að föndra eitthvað á fleka þarna á Ægissíðuni sem var gjarnan vörubretti með einangrunarplasti troðið á milli. Einnig man ég eftir slöngu af fólksbíl sem var blásinn upp og þverspýta sett yfir og svo danglaði maður sér út sjó með prik í stað ára. Fullorðna fólkið var ekkert að kippa sér upp við þetta. Líklega hafa þó kallarnir haft annað augað með manni svona samhliða aðgerðinni.  Ef þetta sæist í dag myndi foreldrum viðkomandi barna staðfastlega vera stungið inn og börnunum komið til vandalausra. Stundum komst ég á skak með pabba og nágranna sem átti bát. Svo uppgvötvaðist Nauthólsvíkin og þangað hjólaði maður sér stundum til að róa bát eða sigla kænu. Tók svo skemmtilegt siglinganámskeið í sömu vík þegar ég var 16 ára í boði starfsmannafélags Landsbankans.  Man ekki alveg hvaða bátar það voru sem við vorum á en amk 2 manna för og einhverjir stærri. Svo fór maður að komast meira á sjó til veiða á fisk og fugli með ofangreindum ferðafélaga mínum og vini sem átti sér svipaða bátadrauma og eignaðist á undan mér lítið fley eitthvað um 14 eða 15 feta vatnabát sem var keyrður á útopnu hingað og þangað um flóann og engin ósýnileg lína sem takmarkaði farsvið annað en rúmmál bensínstanksins. Svo eignaðist ég litla skútu nokkru síðar, eiginlega óvart því ég ætlaði mér alltaf lítinn veiðibát. Þarna réð verð mestu máli. Vantaði bara kopp til að komast út.  Það var mikil hamingja.  Virðist þó hafa verið eitthvað undirliggjandi siglingagen í manni svona sögulega séð. Ekki hefur heldur skemmt fyrir lestur bókarinnar „Í  Kjölfar Kríunnar“ sem kom út 1989. Ábyggilega hleypt mörgum manninum og konunni af stokknum (lesist: sóffanum) og út á sjó. Það skal tekið fram að ekkert af ofangreindu fæst metið til styttingar á skipstjórnarprófi skemmti- og eða atvinnubáta. Það er er þó nokkru vandasamara að sigla á 15 eða 16 tommu fólksbílaslöngu en nýjustu skemmtibátum sem eru sjálfratandi inn og út úr höfnum.

Eftir að ég að ég keypti fyrstu skútuna (17.fet) þá fjárfesti ég í hásetanámskeiði hjá Ými en lagt var út af Brokeyjarbryggju.  Það var fínt námskeið með reyndum leiðbeinenda. Tók svo 30 rúmlesta bóklega prófið (pungapróf). Fyrir fáeinum árum og nokkrum þúsundum sjómílum síðar var síðan skylda að taka verklega siglingaprófið sem ég og annar vinur minn tókum að hluta til á utanborðsmótor nánast í stafalogni úti fyrir Skúlagötunni. Þar fékk ég ICC skírteinið sem heimilar mér að sigla allt að 50 mílur út frá strönd. Ég hafði nú reyndar siglt lengra áður en frá þessum tímapunkti þurfti ég skírteini til þess.  Reynslan hefur þó verið besti kennarinn. Að lesa góðar bækur og horfa á videó um siglingar hefur einnig hjálpað og síðast en ekki síst að hlusta á sér reyndari menn og konur. Einn helsti kosturinn við siglingar og ég vitna í Sókrates án þess að þekkja hann persónulega„Því meira sem ég læri því betur geri ég mér grein fyrir því hve lítið ég veit.“ Þannig það er alltaf tækifæri í siglingum til að læra nýja hluti og slípa það til sem maður telur sig þekkja. Manni endist ekki ævin til að læra það allt saman.

Ég ætla í næstu póstum að ræða aðeins meira ICC réttindi og reglugerðir hérna á Íslandi kringum skemmtibáta. Hvernig er þessu hagað í nágrannalöndunum?Hvaða réttindi eru möguleg og hvað kostar þar að eiga skemtibát?  Hversu víðfem eru þau réttindi ? Set þetta í samhengi við veruleikann hér heima. Þetta er þarft umræðuefni og ég efast um að allir átti sig á því umhverfi. Ég hef áður sagt í skrifum mínum að mér finnst þrengt að skemmtibátaumhverfinu hér á Íslandi og nánast eins og það sé stefnan að gera einstaklingum eins erfitt fyrir og hægt er að sigla. Ég þekki þetta aðeins til að hluta en nóg til þess að kasta fram svona staðhæfingum tel ég. Leggjum það í mat.  Ætla að leggjast í frekari rannsóknarvinnu ásamt því að flytja fréttir af undirbúningi siglingarinnar sem fyrirhuguð er í maí á þessu ári.

Upplýsingar til sjófarenda á netinu og meira þus

ON 20. DESEMBER, 2014 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Var að skoða hvaða upplýsingar ég hefði um siglingar við Noregsstrendur á netinu. Fullt af dóti. Norskur lóðs í sjö bindum frá Svalbarða og suður með Noregi, frír til niðurhals á norsku/ensku. Ítarlegar upplýsingar um straum, flóð og fjöru, ölduhæð, veðurlýsingar og allt framsett í meðaltölum og miðgildum, hágmörkum og lágmörkum, líkindum, já marglitum súluritum og töflum. Ýmislegt annað fann ég og þetta hérna er snilld! Bara verðið að smella á og prófa og fikta. Höfuðkort, sjókort, loftmyndir af öllu norska strandsvæðinu á netinu til þess að skoða og glöggva sig á. Hægt að plotta, skrifa í og prenta út og margt fleira. Hér erum við eftirbátar. Eitthvað það flottasta sem ég hef séð af svona dóti. Norðmaðurinn gefur út að auki sérstök sjókort fyrir smábátaeigendur sem taka á siglingum meðfram strönd Noregs. Athyglivert að  bera saman við þær upplýsingar sem íslenskir skemmti- og smábátaeigendur eða aðrir áhugasamir geta sótt sér ókeypis á netinu sér til upplýsinga og almennrar fræðslu um siglingar við Ísland. Það er rýrt, en hafi þeir lof fyrir sem hafa lagt eitthvað til þeirra mála.  Minni á að hér framanaf átti helst ekki að kenna íslenskum sjómönnum sund þar sem það myndi einungis lengja dauðastríð þeirra. Ég er með lóðs hér einhversstaðar á síðunni um Ísland og Grænland sem hægt er að sækja ókeypis á netinu en hann er gefin út minnir mig í USA en ekki Íslandi. Kort af Íslensku hafsvæði hér á netinu til glöggvunar t.d. innsiglingar í hafnir eða eitthvað slíkt og frítt….gleymdu því.Við erum smá-,eyja-,siglingaþjóð og ættum að halda svona efni úti ókeypis og stolt.

Set eina ferska mynd af herlegheitunum sem norsku vinir mínir tóku um daginn (og svipað leiti og þau yfirgáfu húsið sitt). Þau voru eitthvað að hreyfa yfirbreiðsluna til betri vegar en þau sögðu að það hefði nánast rignt stanslaust frá því um lok okt. Ég var búin að nefna í einhverju blogginu að þau eru að selja allt sitt, kaupa sér skútu í Kyrrahafinu og sigla þar til peningarnir klárast. Snilldarplan finnst mér.

Gleðileg jól og hamingjuríkt sem öruggt siglingaár !

des2014c

Aðeins um verðlag

ON 9. DESEMBER, 2014 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Ég hef lítilega verið að hnýta í verðlag hér á landi tengt skemmtibátum í þessum skrifum mínum sbr. verð á björgunarbátum og búnaði. Einnig að klóra í það sem mér finnst vera íþyngjandi reglugerðir fyrir skemmtibátaeigendur. Bara þras og almenn leiðindi af minnu hálfu. En hér er dæmi og vona að ég sé ekki að bera saman epli og appelsínur en þá hendi ég þessu út og bið alla hlutaðeigandi afsökunar. En tékk á vhf talstöð frá Standard Horizon. Skemtilegar græjur, þessar öflugustu með Gps og AIS og kostar eitthvað um 350 dollara í USA. Tel að það sé ekki verið að selja hana hér heima. En það er verið að selja eina af einfaldari gerð GX 1600. Kostar hér  með vsk. 45.000 í Vélasölunni. En hvað kostar sama græja í nágrannalöndunum?  Umreiknað m.v. gengi dagsins

  • Noregur  35.000 ískr.
  • Danmörk 33.000 ískr
  • Svíþjóð   33.000 ískr
  • Bretland 30.000. ískr
  • USA        17.000 ískr.

Þannig að við greiðum t.d. 36% hærra verð fyrir sömu græju en Danir og Svíar og 29% hærra verð en Norðmenn.

Ég þarf bráðum að kaupa mér talstöð og gott að hafa eitthvað fyrir stafni eins og að skoða verð og gæði og soddan á veraldarvefnum, svona í skammdeginu,skútulaus. Aðeins að tuða í leiðinni þó það sé kannski verið að bera í bakkafullann lækinn af ömurlegri orðræðu hér á landi. En mín viðbrögð eru að kaupa þessa hluti eins og ég get erlendis frá, jafnvel þó það sé eitthvað óhagstæðara m.v. að það sé aðeins ein eining sem er pöntuð, með álagningu frá smásala, gjöldum, vsk, já öllum þeim kostnaði sem til fellur við að koma vörunni heim. Oftar en ekki er það jafnvel ódýrara. Þetta er orðið alveg ágætt hér heima og búið að ræna mann blindan aftur og aftur. Nema auðvitað að kaupmenn  fari að sjá að sér í þessum efnum. Ef  Vélasalan í þessu tilfelli lækkar verð eða útskýrir þennan mun með góðum rökum þá skal ég jafnvel versla af þeim.

(Innsett 27. des. 2014. Það er ljótt að leggja í einelti þannig að ég skoðaði aðra talstöð frá öðrum seljanda. R.S Import sem er að selja Garmin VHF 100i. Kostar hjá þeim 44.900 kr.Iskr. í UK miðað við gengi dagsins 35.200.Iskr. Sama í Danmörku eða 35 þ.Iskr. m.v. gengi dagsins ( 30% dýrara hér). Noregur tæpar 31 þ. ískr Í Svíþjóð ein á 27 þ. iskr. en n.b. hún var á lækkuðu verði.  Hvað ætli sé raunvirði útborgaðra launa hér á  Íslandi miðað við nágrannalönd okkar m.v. almenn neysluviðmið ef við borgum almennt hærra vöruverð, hærri vexti o.s.frv. ? Það sama á við hér hér þ.e. ef einhver getur bent mér á að ég sé að bera saman epli og appelsínur þá hendi ég þessu út með afsökunarbeiðni)

En mikil ósköp hlakka ég til þessarar siglingar og ævintýranna sem munu fylgja stór og smá. Sá einu sinni Kríu sem stóð á lítilli fjöl í dálitlu ölduróti og hvíldi sig ekki langt fyrir utan Gróttu. Hún var ótrúlega fim og tróð ölduna meistaralega. Það var ævintýri. Sá einu sinni þegar ég var að sigla í krappri öldu úti fyrir Borgarfirði og var neðst í öldudal lítin hval líklega höfrung synda inn í öldunni fyrir ofan mig. Það var ævintýri. Var einu sinni í glampandi sólskini og góðviðri út á hrauni á skútunni og það var fullt af hval í grenndinni sem var í síli. Hélt stundum í æsingnum að hvalirnir myndu synda á skútuna en það kraumaði allt í kringum hana af sílum. Kannski 30 metrum á bakborða kom upp hrefna  með gapandi ginið beint upp úr sjónum og hundruðir síla köstuðust upp og út í loftið og í glampanum og endurkastinu  af sílum og úðanum af sjónum myndaðist lítil regnbogi í sólargeislunum. Það var ævintýri.  Úti fyrir hvalfirði eltu skútuna einu sinni 2 hákarlar og trjónan á þeim báðum var ca. meter frá skutnum………jamm fullt af ævintýrum. Bara að hafa vit á því að njóta og líta ekki á sem sjálfsagðan hlut.

—–

Eyjaleið

ON 2. DESEMBER, 2014 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGE2 ATHUGASEMDIRBREYTA

Á vísindavefnum stendur m.a. um siglingar á landnámsöld; „Algengast var á þessum tíma að menn vildu ferðast milli Íslands og Noregs. Í meginatriðum var þá um tvær leiðir að velja, í fyrsta lagi svokallaða eyjaleið og í öðru lagi leið sem við getum kallað úthafsleið. Í fyrra tilvikinu fylgdu menn eyjum Atlantshafsins og fóru frá Noregi til Hjaltlands (Shetlandseyja) eða Orkneyja, síðan til Færeyja og þaðan til Íslands, en öfugu leiðina til baka. Úthafsleiðin fólst hins vegar í því að fara beina leið milli Noregs og Íslands.“ Nú hugmyndin er að fara eyjaleiðina eins og forfeður vorir gjarnan gerðu. Vegalengdin eins og hún er stikuð á neðangreindri mynd er eitthvað um 950 sjómílur og meðalhraði er áætlaður eitthvað um 4 sjómílur. Ég reikna því með stoppum og krókum eitthvað um tæpar tvær vikur í þetta ferðalag svona ef allt gengur að óskum.

  • Frá Manger til Leirvíkur í Hjaltlandi eru um 190 sjómílur
  • Frá Leirvík til Þórshafnar eru um 230 sjómílur
  • Frá Þórshöfn til Reykjavíkur eru ca. 527 sjómílur eða rúmlega helmingur leiðarinnar með mögulegu stoppi í Vestmannaeyjum.
Eyjaleið

En þetta er planið hver svo sem raunveruleikinn verður. Veðurguðirnir ráða líklega mestu um tímalengd þessarar ferðar ásamt öllum hinum óteljandi mögulegu ófyrirséðu uppákomum.

Frekari upplýsingar um Naver 29

ON 22. NÓVEMBER, 2014 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Norðmaðurinn hefur einna helst trú á þessari tegund þó skipið sé danskt. Þá meina ég að í Danmörku og Svíþjóð er hann ekki í sömu hávegum þó hann sé ágætleglega metinn. Norðmaðurinn segir m.a. Naver 29 – I jakten på en god førstegangsbåt for turseilas kan det være en god idé å ikke se seg blind på de mest kjente og populære modellene“.  Í hrislum mínum á ég einhverjar gamlar útektir á þessari tegund sem ég mögulega skanna og set hér inn. Á meðan ef einhver hefur áhuga. Dönsk síða með teikningar o.fl um Naverinnog svo almennar uppl.

Hér er eitthvað sem ég skannaði; Seilsport-norsk úttekt á Naver29 (pdf). Þar segir m.a. „Naver 29 er en rimelig, vakker og hurtig baat. Den kombinerer saa mange gode egenskaper at vi skulle tro den har alle mugligheter til aa bli en ny „folkebaat“ innen halvtonnsklassen. Om den vil bli samme suksess som f.eks IF eller Vega gjenstaar aa se, men forutsetningene har den“ og þar hafið þið það.


Tryggingar, leiga á neyðarsendi og fleira

ON 13. NÓVEMBER, 2014 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Fyrri eigandi hafði samband við mig í gær og sagði mér að trygging á skútunni  væri að renna út. Í kjölfarið talaði ég við tryggingarélagið mitt hér heima en þeir voru ekki spenntir fyrir að tryggja bát erlendis. Hugmyndin er að tryggja skútuna, sem hefur ekki fengið nafn enn, fyrir lágmarksupphæð en vera tryggður fyrir tjóni á öðrum eignum sem ég (skútan) gæti valdið.  Ég er í raun einungis að tala um tímabilið nóv 2014 til loka maí 2015. Ekkert grín að rispa einhverja lúxusfleytuna sem hleypur á tug eða hundruð milljóna króna og vera ótryggður. Það væri ávísun upp á ævilangt gjaldþrot.  Er í sambandi við tryggingarfélag fyrri eigenda í Noregi en þeir hafa ekki svarað fyrirspurn minni. Hringi á morgun hafi ekki svar borist gegnum tölvupóstinn og set hér inn upplýsingar um hvernig þessi mál þróast. Jú vildi taka fram að tryggingarélagið mitt hér heima viritst svo ekki hafa neitt á móti að ég tryggði hann á leiðinni heim. Tala við þá þegar nær dregur. Varðandi neyðarsendinn sem ég hef minnst á áður  þá fæst hann á láni hjá Landsbjörg og dagurinn kostar kr. 1200. Þeir leigja ekki gervihnattarsíma.

20141024_142941

AIS og uppl. um veður frá gervitunglum

ON 8. NÓVEMBER, 2014 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

realtek_rtl2832u_01

Hef verið að velta þessu dálítið fyrir mér því AIS tæki sem sýna nálæga skipaumferð fylgir ákveðið öryggi. Eins að geta nálgast nýjustu veðurupplýsingar út á rúmsjó.  Þessar AIS og Navtex græjur eru ekki gefins. Sýnist í fljótu bragði að nýjar tiltölulega einfaldar græjur myndu aldrei kosta undir 60 þ. til 100 þ. hingað heim.  En…….rakst á mögulega lausn og pantaði frá Kína búnað eins og sjá má á myndinni 2 stk á 20$ eða ca. 2500 kr á núverandi gengi.

Með ofangreindum búnaði og hugbúnaði sem finna má á netinu get ég „hlustað“ á AIS sendingar skipa og „afruglað“ og birt á tölvuskjá staðsetningu, ferð o.fl. gegnum opencpn kortaforritið sem er opensourche hugbúnaður. Get einnig nálgast veðurupplýsingar frá gervitunglum að mér skilst. Í raun og veru er hægt að hlusta á allt mögulegt með þessum vélbúnaði sem er þarna ósýnilegt í loftinu svona með tilskyldum hugbúnaði. Jafnvel sjónvarpssendingar. En AIS og veðrið er málið og ég fæ líklega búnaðinn í hús nú í desember og ætla að skrá niður ferlið við að koma þessu í gang.

Það er búið að prófa þetta svo ég hef svo sem ekki miklar áhyggjur af því að þetta virki ekki.  Helst að ég þurfi að uppfæra vélbúnað og hugbúnað í gömlu fartölvunni en á ekki sérstaklega von á því. Svona ef einhver skyldi hafa áhuga. En set hér tengil á síðu sem útlistar þetta allt saman.

Tók annars þessa mynd 9.nóv af þessu svæði milli Bergen og Hjaltlandseyja og þarna er sæmilegasta umferð

umferð

Björgunarbátur og eitthvað fleira

ON 1. NÓVEMBER, 2014 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Burtséð frá því hvernig ég skrái bátinn þegar hann lendir hér á Íslandi þá gera íslenskar kröfur ráð fyrir ýmsum búnaði í seglskútu ætlaða til úthafssiglinga. Björgunarbátur með tilheyrandi iso staðli, neyðarsendi, fjarskiptadót s.s. imersat eða eitthvað í þá áttina, vhf talstöð (sem draga s.s. ekkert sérstaklega langt -held að loftnet í 10 metra hæð dragi um 8-10 sjómílur svona ef ekkert er að varpa geislanum lengra en set þetta fram með fyrirvara), flotbúninga með tilheyrandi staðli, navtex búnaði eða einhverju svipuðu til að geta tekið við veðurupplýsingum, nauðsynlegum kortum, áttavitum auðvitað og ábyggilega einhverju meira dóti. Nú svo getur maður farið á flug sjálfur og keypt græjur eins og radar eða AIS græjur til að fylgjast með ferð skipa og soddan.

Nú hugmyndin er að fá leigðan neyðarsendi og imersat síma. Veðurfréttir í landi áður en lagt verður af stað í hvern legg verða látnar duga auk útvarps með langbylgjusendi.Yr.no er t.d. með mjög vandaðar uppl. sem tengjast veðri, ölduhæð, straum o.fl..  Það er ekki vhf talstöð í bátnum og hún verður keypt áður en lagt verður af stað . Það eru nokkur kort í bátnum bæði af Bergen svæðinu og svo Hjaltlandi en ekki lengra þannig að það verður að bæta við það og svo er ég með tölvu með sjókortum yfir heiminn og gps tæki sem ég tengi við tölvuna.  Jamm en björgunarbát verður að kaupa og það er nú meinið. Skoðaði Seago bát í grind og með neyðarlosunarbúnaði í Noregi og hann kostaði rúmar 400 þ.  þar.  Á Íslandi held ég að kosti eitthvað rúmlega 300 þ. (bátur kostar hér 260 þ. ) sömu græjur hafi þær ekki hækkað.Ekki flyt ég hann með til Noregs.  Á Hjaltlandseyjum kostar sami pakki rétt rúmar 200 þ, krónur í smásölu og með vsk heim er það þá orðið um 250 mínus breski vsk sem  ég hef ekki hugmynd um hver er.  Reikni nú hver sem vill. Hvernig getur staðið á þessum mikla mun og hér heima? Ja maður verður hugsi í það minnsta. Í Noregi kostar pulsa og kók 1500 kall þannig að ég hnýti ekki í verðlagið þar sérstaklega. Allt of dýrt fyrir almenna íslenska launamenn…nema þá kannski gamlar skútur

Skútan í höfn

ON 26. OKTÓBER, 2014 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Já samningar tókust og skútan er í höfn í Noregi rétt norðan við Bergen og verður vonandi siglt heim í vor. Nú er hægt að fara að stressa sig út af því eða hlakka til svona allt eftir því hvernig maður nálgast það. Seljendur voru ungt, yndislega skemmtilegt og greiðvikið ævintýrafólk sem var að selja allar eigur sínar þ.m.t. skútuna,  búin að segja upp vinnu og eru á leiðinni til karabíska hafsins nú í janúar 2015. Hugmynd þeirra er að kaupa bát í Mexíco og sigla um í 2 ár í það minnsta eða þar til peningarnir klárast.  Alltaf gaman að kynnast góðu fólki.  Set með mynd af þessu heiðursfólki sem aðstoðaði mig við svo margt ásamt nokkrum fleiri myndum af skútunni.  Næstu færslur munu þá tengjast eitthvað undirbúningi. Kostnaður við geymslu á skútunni frá jan út júni eru 3000 Nok. Var búið að greiða að áramótum og sá kostnaður lagðist á fyrri eigendur.  Ekki er pláss til að taka hana upp á land þar sem hún er. Fyrri eigendur sögðu mér að sem nær drægi Bergen þá kostaði þetta hlutfallslega meira.

07_740559193_xl
07_64453587_xl
IMG_2105

Til Bergen

ON 21. OKTÓBER, 2014 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Jæja búin að vera að eltast við tvær skútur og önnur í höfn eða næstum því. Hin skútan sem ég var að vísu að gefa meira auga…ja, seljandinn gugnaði eiginlega eftir að hafa gefið mér tilboð (já hann gaf mér tilboð og hafði lækkað það frá söluverði) í gersemina sem ég samþykkti  með ákveðnum fyrirvörum „hvað vill Íslendingur með að kaupa gamla skútu úr litlum firði í Noregi“ spurði hann og hætti að svara póstum, sem var eiginlega synd. Sú skúta var Scampi 30 á eiginlega hlægilegu verði.  Að vísu var skútan ansi norðarlega. En svona ganga kaupin á eyrinni fyrir sig svona á milli landa….hin skútan er danskur 29 ft, hafsiglari eða túrbátur, Naver 29 og ef allt gengur eftir þá fæ ég hana á ágætu verði. En verð skútunnar er auðvitað ekki heildarkostnaður við svona kaup. Ferðin/ferðir út, bílaleigubíll, hótel og uppihald. Líklegur kostnaður vegna vetrarsetu báts og svo er það nú bara þannig að skandinavar eru ekki með sömu kröfur varðandi öryggisbúnað og hér heima þannig að á einhverjum tímapunkti þarf ég að kaupa slíkt. Svo er hitt og þetta eins og vsk þegar skipið kemur til lands o.fl.. Samt er þetta ódýrara en að kaupa hér heima ef ég reikna mér ekki laun þann tíma sem fer í að gera klárt og sigla heim.  Svo er úrvalið hér er ekki sérstaklega mikið og ekki margar skútur á sölu í hvert sinn.  En Naverinn er 8,80 m á lengd, 2,80 á breidd, 1,85 á hæð sem ég tel mikinn kost vegna því þá get ég staðið uppréttur. Þessi er með díselvél 13 hp en er að vísu jafngömul bátum sem er 1980 módel, nýjum díselhitara 2kw sem er dýrt dót, suzuki utanborðsmótor með löngum legg 3,5hp,  rúllufokku og fleiri þægindi.  Ef gengur ekki eftir þá fer nú að þynnast sjóðurinn sem lagt var af stað með í upphafi.  Já og ég er að fara út þann 23 okt og kem heim á sunnudaginn 26. okt og vonandi með kaupsamning  í vasanum og kannski einhverjar myndir.

Misheppnuð kaupferð

ON 7. OKTÓBER, 2014 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Lenti í dag á Keflavíkurflugvelli eftir 3 daga ferð til Noregs og Svíþjóðar. Ætlaði að skoða 4 báta og kom tómhentur heim. Lítið um það að segja en vissulega lærði ég mikið. Allavega er ljóst að ég mun nálgast þetta í framhaldi á annan hátt og markvissari. En þetta var heljarinnar ferðalag og ók ég samtals um 1400 km til að skoða þessa báta. Einn aðilinn sem ég hafði mælt mér mót við lét ekki sjá sig (Comfort 30). Annar hafði ekki gert mér grein fyrir því að vélin var ekki í fullkomnu lagi þrátt fyrir mikil samskipti og lýsingu sem gaf ekkert slíkt „bilerí“ til kynna. Annars synd því þetta var lagleg skúta af teg. Mamba 29. Síðan skoðaði ég B31 og leist ágætlega á en ég sem er 177 cm var með hausinn upp í „þaki“ en ég vil geta staðið í næsta bát sem ég fæ mér án vandræða. Þannig að það munaði um 2 cm að ég tæki hann heim. En allt í lagi og betra að vera sáttur við kaupinn heldur að kaupa eitthvað og vera ósáttur alla tíð. Fjórði báturinn sem ég ætlaði að skoða var einnig B31 og þurfti því ekki að skoða hann frekar enda eins og hinn þ.e. sama lofthæðin.  En nú er að athuga þetta  frekar og e með ákveðnar hugmyndir hvernig ég nálgast þetta í framhaldi.  En það var fallegt í Svíþjóð og Noregi, haustlitirnir að verða allsráðandi og s.s. hugguleg siglutrén og bátarnar þar undir í óteljandi  marínum þarna á vesturströndinni. Meira síðar.

Meira um gjaldeyrishöft og ekki gjaldeyrishöft

ON 26. SEPTEMBER, 2014 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Fékk hringingu frá Seðlabankanum í fyrradag eftir tæplega 3 vikna bið. Þarf ekki sérstaka undanþágu fyrir gjaldeyriskaupum vegna þessarra kaupa!

Upphæðin langt undir viðmiðunarmörkum. Spyr auðvitað af hverju ég fékk ekki þær upplýsingar í upphafi. En það er annað mál. Fór strax í að skoða flugafar út og lægsta fargjald var rúmlega 45 þ. til Noregs í byrjun okt og heim. Festi það  og ætla að reyna að festa eina í ferðinni.  Leitarsvæðið hjá mér nær frá Osló og niður til Gautaborgar og mér sýnist í fljótu bragði að á þessu svæði séu 3 til 5 sem koma til greina. Meira um það síðar.

(Des.2015; gleymdi að taka fram að m.v. núverandi gjaldeyrishöft hefði mér verið heimilt að kaupa farartæki þ.m.t. skútu upp að 10 milljónum)

Aðeins um kostnað, reglur o.fl.

ON 22. SEPTEMBER, 2014 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Bátar bera 10% toll og 25,5% vsk sem leggst á kaupverð og flutningskostnað. Þessar upplýsingar komu frá Tollinum þann 27.ágúst 2014.  Aðrir segja mér að þetta sé ekki rétt þ.e. þessi tollur eigi ekki við. En verð að ætla að tollurinn viti þetta. Mér hefur skilist að hægt sé að fresta síðan greiðslu gjalda um ett ár. En þarf að athuga það betur. Svo þarf báturinn að vera CE merktur en reglur um það má sjá á eftirfarandi síðu. Væri íslands í EU þyrfti hvorki að geiða vsk eða toll ef kaupin ættu sér stað innan evrópubandalagsins. Þannig er það nú.

Síðan þarf að skrá skemmtibátinn hér og kaupa búnað sem kröfur eru gerðar til hér heima sé hann ekki fylgihlutur við kaup þ.e. björgunarbát, neyðarsendi o.fl.  Mér hefur sýnst það ekki vera skylda að skrá skemmtibáta á norðurlöndum amk ekki Danmörku og Svíþjóð (þó slík skráning sé til þá er hún ekki krafa) undir ákveðinni lengd og skilst að það séu um 10 metrar í Danmörku. Einnig sýnist mér skemmtibátar þar ekki vera með sömu stífu kröfur um björgunarbúnað og skoðun eins og hér. Ætla ekki að hætta mér út í þær umræður en segi bara að Íslendingar eru almennt kaþólskari en páfinn þegar kemur að reglum boðum og bönnum. Jú jú segi það bara…margt af því mætti endurskoða og rýmka reglur sem koma í veg fyrir að margur geti keypt sé bát og stundað þessa útiveru og sport. Forsjárshyggja hins opinbera varðandi skemmtibáta er í það mesta og skemmtibátaeigendur ættu að stofna samtök til þess að sporna við íþyngjandi reglugerðum, boðum og bönnum hins opinbera. Lýsi eftir því.  Líklega væri réttarstaða mín gagnvart þessum boðum og bönnun skárri ef ég sigldi um á baðkeri en rúmlega 8 metra sterkbyggðri skútu.  En þessa reglur á að endurskoða og færa til samræmis við reglur nágranna okkar. Má vel endurskoða og létta án þess að verið sé sérstaklega að kasta fyrir róða öryggi skemmtibátaeiganda. Flest okkar eru jú bara að sigla yfir sumartímann á sólskinsdögum og flestir eru ekki að fara lengra en max 10-20 mílur og nánast alltaf eða alltaf í símasambandi. Reglur eiga að taka mið af slíku. Dýr öryggisbúnaður ætti svo að vera til leigu vildu skemmtibátaeigendur sigla lengra og dýpra. Slysavarnarskólinn gæti t.d. gert út á  slíkt og myndi ég glaður greiða þeim hóflegt leigugjald t.d. fyrir björgunarbát og/eða neyðarsendi sem og björgunargalla í skipti sem ég vildi sigla lengra.

Nú eru gjaldeyrishöft í gangi. Seðlabankinn tekur sér 8 vikur í að svara beiðni um undanþágu vegna gjaldeyriskaupa. Ég gekk í þetta fyrir tveimur vikum og vissi ekki að álagið á starfsfólk væri svo mikið að tæki þetta langann tíma. En það er nú heldur betur og mér brá dálítið því það er ákveðið verðfall á bátamörkuðum erlendis á þessum tíma og vil ekki missa af því. En gott starfsfólk seðlabankans ætlar að reyna að flýta þessu fyrir mig. Þá er ferðalag út sem kostar sitt og svo geymsla bátsins yfir yfir veturinn. Stefni á að fara út eftir 1 til tvær vikur og reyna að festa bát og segi frá því þegar ég kem til baka hvernig gekk.  Hér svo ein mynd af Comfort 30

Forsendur

ON 20. SEPTEMBER, 2014 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Svona legg ég dæmið upp. Skútan sem ég kaupi þarf að vera góður og öruggur siglari. Hún skal vera minnst 29 ft. á lengd nálægt 3 metrum á breitt og lofthæðin ekki undir 1.85 m. Lofthæðin skiptir máli því að vera með hökuna sífellt fastlímda niður á bringu ofaní skútunni er heldur hvimleitt til lengdar. Það þarf að auki að vera díselvél,rúllufokka og öll bönd að liggja aftur í skut. Segl og reiði þurfa að vera í góðu lagi og svo auðvitað skrokkurinn. Aðrir fylgihlutir eru plús. Upphæðin sem ég get eytt í þetta eru um 2 milljónir þ.e. kaupverð skútunnar má ekki vera mikið meira. Ofan á þetta legst annar kostnaður s.s. flutningur, vks, ferðir út til að skoða skútur og slíkt. Líklegur kostnaður á endanum er því eitthvað um 3 milljónir.  Hér er verið að sýsla með mjólkurpeninga fjölskyldunnar. Aðrir innan hennar hafa ekki sama áhuga og því ekki hægt að tapa sér í þessu sem er auðvelt. Fjármagnsþakið gerir það að verkum að ég er að kaupa eldri skútu líklega mótel  á bilinu 1973 til 1980. Ég er dálítið að skoða í dag 30 feta skútur á norðurlöndunum af tegundinni Albin BalladComfort 30 eða Scampi. Allt eru þetta vandaðar skútur og Balladin hefur farið kringum hnöttin veit ég. Síðan er ein Dufor 31, skúta sem ég er dálítið svagur fyrir. Sendi eigandanum bréf sem er norðmaður en hann svaraði því til að hann myndi selja hana fyrir vikulokin (fyrir tveimur vikum) og „þyrfti því ekki að selja mér hana“. Dálítið sérkennilegt orðalag en eflaust fannst honum flókið að vera selja hana einhverjum útlendingi, jafnvel þó mögulegt sé að genamengi okkar skarist eitthvað. Allavega er skútan enn á sölu þegar þessi orð eru skrifuð. Tímamörkin sem ég gef mér varðandi kaup eru fram í miðjan okt. Ég er aðallega að skoða skútur í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Hlutfallslega dýrastar í Danmörku sýnist mér. Ég hef vaktað þessar sölusíður sem ég er að skoða áður en fyrir nokkrum árum vorum við þrír kunningjar að velta fyrir okkur kaupum á skútu frá Svíþjóð og sigla heim. Því miður varð ekki af því. Segi miður því gengið á sænsku krónunni var þá um 8 kr. en er núna ca. 17 kr. Reynsla mín er sú að skútur hverfa af sölu þegar líður á haustið en birtast aftur á sölu að vori og ´þá á fullu verði þ.e. að á haustinn lækka þær töluvert í verði. Þá er tækifærið.

Þetta eru síðurnar sem ég skoða helst.

Svíþjóð

Noregur

Danmörk

Albin Ballad

Kveikjan að hugmyndinni

ON 20. SEPTEMBER, 2014 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Undanfarið hefur sú hugsum ágerst að sigla lengra en áður, út fyrir lögsöguna og landhelgina. Var jafnvel að hugsa um að sigla suðureftir til Skotlands eða norðurlandanna næsta ár en var dálítið tvístígandi. Þó Krían sé gott sjóskip þá er búnaðurinn til langsiglinga ekki í besta standi um borð. Utanborðsmótor og eldri segl o.fl. sem dró úr mér kjark. Fram og tilbaka sigling tímafrek sem dró úr áhuga.  En áhuginn var þarna sannarlega. En til að gera langa sögu stutta þá var Krían bundinn við Brokeyjarhöfn á menningarnótt. Hafði tölt um bæinn um daginn og var að bíða eftir flugeldasýningunni þegar ég fékk góða gesti um borð.  Þetta var ungt fólk sem hafði talað við mig fáeinum árum áður þegar ég var að dytta að Kríunni í Snarfarahöfn. Þau voru mjög áhugasöm um skútur og spurðu mig spjörunum úr um allt mögulegt sem þeim datt í hug. Ég gerði mitt besta til að svara svona eins og ég hafði vit til ( ég vil taka það fram að þó ég sé mikill áhugamaður um siglingar þá er hellingur af íslensku skútufólki með mun meiri reynslu og mun meiri þekkingu en ég).

Þau sögðu mér að þau hefðu í framhaldi af okkar spjalli farið að stunda skútuíþróttina með Brokeyjarmönnum til að ná sér í reynslu, náð sé í tilskilinn leyfi, húrrað sér suðureftir, keypt sér skútu í Frakklandi og siglt um miðjarðarhafið í 4 mánuði. Skútan beið þeirra þar en  planið næsta ár væri að sigla henni til Svíþjóðar og búa þar um borð meðan frúin stundaði framhaldsnám en herrann væri að vinna. Þau sýndu mér líka bráðskemmtilegt vídeó af skútunni og ferðalaginu og ég var algjörlega uppnuminn og heillaður af áræði þeirra, lífsgleði og almennum skemmtilegheitum. Takk fyrir það …..á leiðinn heim í Snarfarahöfn um nóttina og í þungum þönkum fæddist hugmynd og ég sagði upphátt við sjálfan mig „andskotinn sjálfur“ en hugsaði svo,,,,ég sel skútuna og kaupi aðra úti og sigli henni heim næsta ár.  Þetta var á sunnudegi, ég auglýsti skútuna til sölu  og fáeinum dögum síðar var hún seld. Nokkrir höfðu mikinn áhuga en fyrsti aðilinn sem hafði samband fékk hana að lokum.

Skútan seld!

ON 31. ÁGÚST, 2012 HÖFUNDUR: SAILBOATPAGEFÆRÐU INN ATHUGASEMDBREYTA

Jæja skútan seld og maður frekar allsber í augnablikinu. Að skútast klæðir nefnilega vel.  Búin að sigla síðustu árin þvers og kurs Faxaflóann inn í  Breiðafjörð og suður og vestur fyrir Reykjanesskaga. Þekki orðið nær hvern sjódropa hérna innan Faxaflóans.  Skiptin mörg en sjómílur í hófi. En hóf er best í hófi og maður reynir að teygja þetta meir og lengra  með hverju ári. Tímafaktorinn er helsta hindruninn fyrir lengri siglingum.  Tók saman úr loggbókinni og þetta eru eitthvað um 500 til 600 sjómílur á hverju ári síðustu 7 árin. Það gera um 4200 mílur sem eru um 7800 km. Hringvegurinn er ca. 1300 km svona til samanburðar og sjómílur frá Reykjavík til Skotlands eru um 650 sjómílur.  Man ekki hvað ég var að sigla á litlu skútunni sem ég átti áður en það var minna, hún stutt í alla enda, ekki nema 17 ft og ekki mikið sjóskip. Sigli mikið einn en stundum með góða stýrimenn og háseta mér til stuðnings og félagsskapar.

Í fyrra tók ég ekki upp og sigldi einnig um veturinn sem var góð skemmtun. Þá er umhverfið nátturulegur ísskápur og auðvelt að kæla ölið…líklega ekki til fyrirmyndar en einn öl í öruggu vari gleður jú bara sálartetrið.  Já það eru ýmiss hlunnindi hér á Kúbu norðursins í nátturunni þó það halli á í hitastiginu. Maður þarf bara að kunna að meta og njóta.

IMG_1809

Nýr eigandi ætlar að búa í skútunni í Reykjavíkurhöfn og óska ég honum (henni) velfarnaðar og ánægjuríkra daga á sjó og í höfn. Umrædd skúta er af gerðinni Tur84, kostagripur, stöðugur og nokkuð rúmgóður , 27 f.t (8,35 m) en í daglegu tali sagt að sé 28 ft.  Breiddin er  2,60 metrar og lofthæðin í skútunni ca.+ 1.7 metrar.

En skútuvírusinn er skæður og ekki auðveldlega hristur af sér . Hugmyndin er að kaupa skútu að utan og sigla henni heim næsta vor eða sumar. Ætla að skrifa um ferlið og það sem mér dettur í hug á þessa síðu. Dagbók fyrir mig og getur kannski hjálpað einhverjum sem er í sömu sporum og stytt honum leið eða þá ef einhver sér sem hefur reynslu þá kannski sendir hann mér línu og segir mér frá sinni reynslu og því sem ber að varast.  Með því að smella á „myndina efst á vefsíðuni -Íslenska seglbátasíðan“ er hægt að komast í fleiri skrif um þessa vegferð.