Einn í Hirsthals

Eftir komuna til Hirtshals tókust umræður um framhald ferðarinnar og voru Leif hafnarstjóri og kona hans þáttakendur. Veðurspá gerði ráð fyrir stórviðri af vestri a.m.k í viku. Áhöfnin öll nema skipstjóri er vinnandi fólk í fríi og hafði ekki tíma nema til 11. júli í svona ævintýri. Var ljóst að hún yrði að yfirgefa skip og skipstjóri yrði þá einn eftir. Leif bauð ýmsa kosti . Hægt var að skilja skipið eftir þarna undir hans eftirliti í langan eða skamman tíma. Þá bauðst hann til þess að auglýsa á Facebook eftir mönnum sem vildu sigla Hinrik III til Íslands. Sá kostur virtist skipstjóra bestur og voru gerðar ráðstafanir til hins sama í hópum siglingamanna á Íslandi.

Daginn eftir kom Leif aftur og sagði gamlan kunningja sem héti Niels hafa áhuga á að sigla. Nokkru síðar kom kunninginn, ljóshærður vatnsbláeygur karl nokkuð við aldur. Svona menn þekkti ég vel frá því ég var sjálfur á togurum og þurfti ekki að efast að hann var vanur til sjós. Niels sagðist ekkert vit hafa á seglum en hann væri góður að splæsa bæði tóg og vír og gæti tekið kríulöpp ef þess væri krafist. Hann talaði dönsku af þvítagi sem er Íslendingum óskiljanleg. Hann spurði hvort til væri öl um borð og var rétt dós af Carlsberg. Bjórinn drakk hann , fór svo og sagðist koma aftur síðar. Leif hringdi um kvöldið og sagðist hafa efasemdir um Niels. Sér hafi sýnst hann vera vel drukkinn þegar hann kom í heimsóknina og var ég því sammála. Leif sagði að 5 aðrir hefðu hringt í sig eftir auglýsinguna m.a ungur maður Sune að nafni, sem sér litist vel á. Úr varð að ég talaði við Sune og daginn eftir kom hann um borð og hafði með sér móður sína. Sune er 19 ára nemi í sjómannafræðum, hefur verið á dönsku skólaskipi, auk þess sem hann hefur siglt smábátum frá því hann var krakki. Honum leist mjög vel á að sigla með Hinrik III og skoðaði allt vandlega um borð. Móðirin var greinlega komin til þess að gera úttekt á þessum skrýtna íslenska karli, sem sonurinn ætlaði að fara að sigla með.

Lítil viðbrögð komu frá Íslandi og virðist landsfólkið þar að mestu fráhverft sjómennsku og siglingum eftir að fótboltinn og snjallsíminn kom í landið. Nú virðist sem veðrinu á Skagerak muni slota eftir helgina og er stefnt að því að leggja úr höfn þriðjudaginn 9. júlí. Þá hefur komið á daginn að vinur og skólbróðir Sunes , sem heitir Anders, ætlar að koma með. Það lítur því út fyrir þriggja manna áhöfn á Hinrik III , sem er lúksus.

Gamla áhöfnin fór gærmorgun og ók Leif hafnarstjóri þeim út á flugvöllinn. Skipstjórinn situr einn í skipi sínu og fer vel um hann. Landrafmagn er um borð og veitingahús og verslanir hinum megin við götuna. Þangað fer hann stundum með gömlu gufutölvuna sína , fær sér kaffi og les netpóst og fréttir og bíður. Upp rifjast frásögnin um Billy Bones úr Gulleyjunni eftir R.L.Stevenson, þar sem hann sat og drakk í veitingahúsi föður Jim Hawkins milli þess sem hann fór út og svipaðist um. Hann beið komu annarra skipverja af skipi Flints skipstjóra til þess að ná af sér sjókortinu af Gulleyjunni.

Auglýsingar

Framhald

Þó svo 3/4 hlutar núverandi áhafnar séu á leið heim er ferðalaginu hvergi lokið. Það verður skráð áfram og ég mun birta hér pistla sem Finnur sendir mér þegar hann kemst í samband við veraldarvefinn.

Það var setið yfir veðurspám í gær og virðist fært út úr Skagerak á þriðjudag. Þá er veður búið að hamla för Hinriks lll, í rúma viku. Það gildir því þetta fornkveðna í öllum siglinga- og tímaplönum að „kóngur vill sigla en byr ræður för“.

Póe

Ný áhöfn

Hér í Hirsthals er skafrenningur. Ekki svona eins og við þekkjum heima heldur gulur sandur úr fjörinni sem fýkur í skafla hér við höfnina og nánasta umhverfi strandarinnar. Ætli danir eigi mörg orð til að lýsa mismunandi tegundum sandroks?

Ég veit ekki hvort það séu til vindstigseiningar sem lýsa brotum úr vindstyrk. Hér hefur amk ekki dregið úr milli-hnútum frá því við lentum ì höfn eða vindstefna breyst brot úr gráðu úr vestnorðvestri og ekki lát á fyrr en á laugardag eða sunnudag. Stanslaus blástur og heimamenn segja þetta mjög óvenjulegt. Þá er þetta búið að standa yfir í tæpa viku. Það er því búið að bóka flug heim á morgun og undirritaður og Róbert höldum heim en Benedikt dreif sig til Hróarskeldu í gær. Það verður notalegt að losna við að bryðja sand daginn út og inn. Fer líka illa með tennur. En já…ný áhöfn. Tveir ungir danskir strákar sem eru klára nám í sjómennsku hafa boðist til að sigla með Finni heim og er vel mannað því þeir hafa að auki nokkra reynslu. Ekki meira að sinni. Póe

Ferð Hinriks III um Norður Atlantshaf 2019Ferð Hinriks III um Norður Atlantshaf 2019

Miðvikudagsmorgun 26 júní kl 8:15 að morgni köstuðu fjórir kátir karlar landfestum tvímastrungsins Hinriks III í höfninni hjá Toft Marine í Grásteini á Jótlandi. Ferðinni var heitið til Íslands . Daginn áður höfðu þeir félagar notið gestrisni í húsi Ingveldar Ólafsdóttur við Degnetoftgötu , systur eins áhafnarmeðlimsins og snætt þar kvöldverð eftir að hafa notið fordrykks í garði frúarinnar.

Bíða þurfti þess að brúargólf mikið sem lokar höfninni í Grásteini lyftist áður en menn sigldu undir vélarafli út á fagran Flensborgarfjörðinn þar sem segl voru fljótt dregin að hún og vél hvíld. Vindur var vestlægur, hægur í fyrstu en jókst stöðugt eftir því sem leið á daginn. Þegar komið var út úr firðinum og Eystrasaltið blasti við var vindur orðinn vel þéttur og bauð upp á að lens yrði siglt. Var valinn sá kostur að að slaga undan vindinum , til þess að betur færi um menn um borð og var vindurinn því tekinn nokkuð til hliðar við hreint lens. Rétt er að láta þess getið að karlarnir á Hinrik III eru sundurlaus hjörð og aldursdreifingin er u.þ.b.hálf öld. Ekki kemur það samt niður á samkomulaginu um borð því að það er mjög gott . Hýrt var yfir mönnum þegar Hinrik fór að sýna kostina þar sem hann rann stöðugur yfir öldurnar á hraða sem oftast var við 6-7 hnútar en fór alloft yfir 8 hnúta þarna í sólskininu og hló þá mönnum hugur í brjósti. Skiptust menn á um að stýra en lágu þess utan sumir í sólbaði , aðrir fengu sér dúr eða dáðust að fegurð himinsins.

Þetta breyttist fljótt þegar snúið var til norðurs til þess að sigla Stórabelti og skipinu lagt til beitingar gegn vindi sem nú var orðinn allhvass. Tóku sjóir að ganga yfir skipið og bleyttu í sólbaðsmönnum og hvarf værukærðin fljótt. Var hlaupið til að loka dekklúgum og gluggum og týna upp af káetugólfinu margvíslegt dót sem auðvitað hrundi niður úr ýmsum áttum þegar skipið tók að leggjast undan sjóunum. Siglingin norður gekk þó vel og kokkurinn um borð vann það þrekvirki að elda girnilegan kvöldverð handa áhöfninni , sem ekki er auðunnið verk í lítilli skútu sem endastingst á snörpum beitivindi. Þegar kvöldaði og myrkur skall á var Stórabeltisbrúin farin að nálgast og siglingaleiðin að þrengjast af baujum og umferð. Kom loks svo að ekki var lengur svigrúm til þess að hafa uppi segl því vindur var því sem næst beint í nefið og var þá siglt á vél. Sjór var ekki beint þungur en ótrúlega krappur og endastakkst skútan eins og rugguhestur undir krakka. Þegar loks var siglt undir hina miklu brú sem tengir Sjáland og Fjón varð fljótt ljóst að lítið yrði komist áfram á lítlinni vél skútunnar gegn vindi og sjó. Var ákveðið að láta gott heita að svo komnu og leitar hafnar til skjóls og hvíldar um sinn. Tölvumenn skipsins fundu fljótt Nyborg Lystbaadehavn . Það voru þreyttir og svangir karlar sem lögðu þar að bryggju undir morgun, örlítið beygðir kannski en alls óbrotnir.

Ákveðið var að sofa af nóttina í Nyborg. Lagt var aftur af stað semma næsta morgun , Föstudag 28 Júní, og haldið í annað sinn undir Stórabeltisbrú. Síðan var siglt sem leið liggur norður dönsku sundin í sól og blíðu. Leiðin er krókótt en vel merkt og var tekin upp fyrri iðja með sólböðum á afturdekki og hugleiðingum í stýrisrými um lífið og tilveruna. Varð ekkert til tíðinda fyrr en komið var yfir miðnætti að bæta tók í vind og innan stundar var sigldur liðugur vindur við sex vindstig. Voru segl minnkuð. Genóa rifuð og messasegl tekið niður. Áfangastaðurinn var eyjan Læsö í Kattegat , sem Ríkarður Pálsson segir að heiti Hlésey á norrænu máli , kennd við orðið Hlér sem merkir sjór og kemur einnig fyrir t.d.í vísunni alkunnu Austan kaldinn á oss blés. Valin hafði verið leið vestan við eyjuna og kostaði það nokkurn krók norður fyrir grynningar sem eru við norðvestur endann.

Það er ávallt nokkurt kvíðaefni fyrir skipstjórnandann að taka höfn í litlum ókunnum höfnum við þröngar aðstæður einkum þegar vindur er mikill. Að þessu sinni gekk allt vel og Hinrik lagðist að bryggju þar sem sjálfur hafnarstjórinn var tilbúinn að taka á móti spottanum. Var gott að koma í land þarna . Menn fóru í land og fengu sér sturtu og bjór á eftir. Á eyjunni er hvít sandströnd, þar sem Halldóra dóttir skipstjórans hljóp úr augnsýn fyrir nokkrum árum, er þau feðgin komu við í Hlésey sem hluti af áhöfn skútunnar Esju, föður sínum til nokkurrar áhyggju, en kom svo loks til baka aftur heil og ósködduð auðvitað.

Upp kom umræða um að drollað hefði verið of lengi í Nyborg og rétt væri að nýta tímann betur .Var ákveðið að fara aftur af stað um kvöldið. Voru áður vandlega skoðaðar tiltækar veðurspár og voru allar góðar. Sýndist mönnum vel mögulegt að ná í einum legg til Færeyja eða að minnsta kosti til Hjaltlands. Var lagt úr höfn laust fyrir miðnætti laugardags kvöldið 29. Júní. Gekk sigling vel um nóttina í léttum vindi og stundum undir vél þegar vind lægði um of. Þegar dró nær hádegi sunnudags tók vindur að vaxa og var því vel tekið um borð því ávallt er notalegra að fara undir seglum en vél, þótt gott sé að eiga að góða vél í skútu. Vindur hélt áfram að vaxa eftir því sem leið á daginn og voru segl minnkuð jafnharðann. Fyrst var Genóa rifuð og síðan messasegl tekið niður. Þá var Genóa alveg tekin inn. Loks var stórsegl rifað og gekk það ekki þrautalaust því að vindur var þá orðinn svo mikill að áhöfnin átti í mestu erfiðleikum með að ná stórseglinu niður vegna vindþrýstingsins. Það tókst þó að lokum, mest fyrir harðfylgni dekkmanna skipsins, sem eins og margir aðrir góðir Íslendingar, reynast best þegar harðast er barist.

Nú var ekki lengur um neina siglingu að ræða því stórsjóir tóku að myndast og rifað stórseglið gerði ekki annað en að halda skútunni stöðugri . Hana rak nú undan veðri og vindi í áttina austur Skagerak og í áttina til Danmerkur. Stýrið var sett fast og þurfti ekkert frekar að því að hyggja. Skútan virtist fullkomlega örugg í öldurótinu, vaggaði svolítið til og frá og tók á sig brot öðru hvoru. Skipstjóri áætlaði að veðurhæð væri um átta vindstig á kvarða Beuforts, sem er sá eini mælikvarði sem nothæft gildi hefur í siglingum. Miðað við aðstæður fór bara vel um skipverja. Menn héldu sig í koju, þeir sem ekki stóðu vakt í stýrisrúmi. Mest hætta var að meiða sig með því að rekast á eitthvað er menn voru að brölta um neðan þilja. Eitt band slitnaði. Það var rifbandið sem heldur stórseglinu niður á bómuna eftir að rifað hefur verið. Sem betur fer hafði verið sett viðbótarband til öryggis og hélt það . Síðan var tekið afturhal seglsins , sem ekki er í notkun þegar rifað er og sett í staðinn fyrir hið slitna rifband. Önnur óhöpp urðu ekki og allt annað hélt. Þannig var látið reka í hálfan sólarhring.

Þegar liðið var nokkuð á nóttina var skipstjóri vakinn í koju sinni með þeim tíðindum að tölvumenn skipsins hefðu náð sambandi við netheima og fundið út að skipið hefði rekið svo nærri Danmörku að ekki væru nema 10 sjómílur í höfnina Hirtshals á norðurenda Skagen. Ennfremur hefði veðrinu slotað og hugsanlegt væri að ná landi. Var vél umsvifalaust sett í gang og stefnu breytt í svolítið austur af suðri. Þurfti að beita skipinu töluvert vestar en raunveruleg stefna var til þess að vinna gegn veðrinu. Minnti það á flugvél sem flogið er til lendingar í hliðarvindi auk þess sem eingöngu var siglt eftir tækjum því að ekkert annað sást í myrkrinu.Var þetta nokkuð spennuþrungin sigling, þar sem tölvur sögðu mönnum að enn verra veður væri áleiðinni, sem myndi standa næstu daga. Væri nú að duga eða drepast. Sat skipstjóri við stýri, kokkurinn fylgdist með nákvæmri stefnu og vegalengd á tölvuskjá og dekkmenn störðu út í myrkrið í leit að baujum og ljósmerkjum auk þess sem einn þurrkaði öðru hverju seltuna af gleraugum skipstjórans. Eitt sinn þóttust menn sjá skýr og greinileg ljós á hlið. Það reyndust vera villuljós sem komu frá stórri ferju sem þokaðist fram hjá í myrkrinu. Allt gekk þetta að óskum og var höfn náð í Hirtshals þegar líða tók að morgni. Var fyrsta bryggjupláss tekið, sem fannst og var fyrir innan stóran togara, og skipið bundið. Eftir það stungu menn sér í koju og voru allir sofnaðir svefni hinna réttlátu áður en hendi var veifað.

Þegar menn vöknuðu var kominn bjartur dagur og vingjarnlegur maður stóð á bryggjukantinum. Sagði hann óheimilt að leggja skipinu þarna og bauð að koma með það inn í smábátahöfn þar sem hann réði ríkjum . Lýsti hann nákvæmlega leiðinni þangað inn, því að höfnin í Hirtshals er stór og með marga botnlanga í ýmsar áttir. Gekk greiðlega að finna smábátahöfnina og var hafnarstjóri þar kominn til þess að taka á móti spottanum. Tókst það þó ekki betur til en svo að vegna vindálagsins gat hann ekki haldið spottanum og varð að sleppa. Hinrik var ætlaður staður í horni einu milli tveggja meðalstórra ferja og nokkurra smábáta. Tók það nokkurra snúninga og spennuþrungin augnablik með tölverðum inngjöfum á vél áður en tókst að leggjast aftur að bryggjukantinum og binda skipið fast.

Hafnarstjórinn heitir Lars og reyndist mjög hjálpsamur . Eftir stutta stund var kona hans einnig komin að aðstoða skipverja við að koma sér fyrir. Skútan var tengd við rafmagn og vatn var við hendina. Innan stundar höfðu menn komist í sturtu og snurfusað sig eftir smekk hvers og eins, því að skiptar skoðanir eru um það í áhöfninni hvort eigi að raka sig á svona ferðalagi eða leyfa skegginu að vaxa. Var þá sest við morgunverðarborð á nærliggandi veitingastað og snæddar danskar kræsingar með bjór og vatni. Af einhverjum óútskýrðum ástæðum virðast menn þyrsta mjög eftir pus á sjó. Umræða tókst meðal skipverja um þá góðu veðurspá sem lagt var upp með frá Hlésey tveimur dögum fyrr. Varð niðurstaðan helst sú að röng spá hafi verið lesin. Hún hafi verið hálfsmánaðar gömul, þegar lagt var af stað.

Finnur

Hirtshals

Þangað siglir Norræna og þangað rákum við í nótt undan stormi. Gott að vera í höfn. Finnur Torfi segir betur frá síðar en hann er að setja saman eitthvað á blað. Búið að vera brælur hvert einasta kvöld og um nætur. Hér fyrir utan blæs 22m og engin áhugi á siglingu. Veðurspáin segir hvassar vestnorðvestur eða norðvestan áttir næstu daga og blæs þvíekki sérlega byrlega fyrir að hefja næsta legg sem átti að vera til Færeyja. Sjáum til.Kv, póe

Af stað og stopp

Siglingin frá Gråsten byrjaði glæsilega, með rólegum byr sem hentaði okkur lærisveinum ágætlega enda margt að læra. Við lögðum af stað um kl 08:15 eða um leið og vindubrúin opnaði. Hitinn var um 28 gráður og því allir frekar léttklæddir og afslappaðir. En vindur jókst svo um munaði þegar leið á daginn. Þegar við sigldum norður Kattegat var beitt vel upp í og öldur urðu krappar og háar. Þegar leið á kvöldið og nóttina varð þetta hins vegar mestan part óskemmtilegt. Innsiglingin undir Stórubeltis brúna er frekar þröng og lítið rúm til að „manuvera“. Stefnan hjá okkur var um 360 gráður og sterkur vindur úr sömu átt. Að lokum voru segl tekin niður í svarta myrki og óspennandi að fara út á þilfar við slíkar aðstæður og öldugang. Við fórum varla hnútinn á móti. Það tók okkur einhverja 5 klst að fara fáeinar mílur og undir brúna. Þá fyrst syrti í álinn. Það var orðið bálhvasst og öldur mjög krappar. Mótorinn réð ekki við að halda bátnum á kúrs. Það var því fátt í stöðunni og leitað næstu hafnar. Við fórum til baka undir brúna og komum til Nyborg kl. 6 í morgun. Vorum allir orðnir mjög þreyttir. Nú er hvíld, tiltekt og lagt af stað í fyrramálið.

Póe

Sældarlíf

Þriðjudagur 25.júni. þvílíkt sældarlíf. Hitinn 25 til 30 gráður og sannkallað stuttbuxnaveður. Í gær var okkur boðið til veislu á fallegu heimili Ingveldar systir Finns Það var stjanað við okkur á alla lund og maturinn frábær.

Búið að vera nóg að gera, kostur til tveggja vikna keyptur í morgun og annað sem vantar. Allt á að vera klárt og stefnan á að sigla að stað í fyrramálið.

Póe