Sældarlíf

Þriðjudagur 25.júni. þvílíkt sældarlíf. Hitinn 25 til 30 gráður og sannkallað stuttbuxnaveður. Í gær var okkur boðið til veislu á fallegu heimili Ingveldar systir Finns Það var stjanað við okkur á alla lund og maturinn frábær.

Búið að vera nóg að gera, kostur til tveggja vikna keyptur í morgun og annað sem vantar. Allt á að vera klárt og stefnan á að sigla að stað í fyrramálið.

Póe

Auglýsingar

Veiðarfæri, fjármögnun ofl.

Á morgun er flug til Hamborgar en þar mun Finnur Torfi sækja mig og Róbert á Fiat i „skóstærðarflokki“ eins og hann hefur lýst sjálfur bifreiðinni. Benedikt, sem er staddur i Berlin mun hins vegar taka lest til Flensborgar og verður kippt upp þar. Það er búið að pakka þvi nauðsynlegasta en eitthvað verður að versla þarna úti i búnaði þar sem það kemst ekki i töskur.

Eg hafði haft samband við Þýska tollin (zoll) og spurði hvort það væri i lagi að taka með sér veiðarfæri inn i landið. Það er i lagi. Við tökum þvi með okkur veiðihjól og eithvað lokkandi og hættulegt fiskum til að draga á eftir Hinriki hinum þriðja.  

Spáin er hagstæð fyrstu daganna meðan við siglum frá Grásteini norður Kattegat, 20 til 26 gráður. Kólnar svo. Vindur eitthvað 10 til 15 ms fyrstu tvo sólarhringa i siglingu en gæti svo farið upp i 20 til 30 ms a móti þegar við sveigjum til vesturs við Skagerak og inn norðursjóinn. Þetta er annars nokkuð drjúgur spotti eða um 250 sjómílur. En tökum stöðuna áður en af þvi kemur. Það verður stoppað á leiðinni. Okkur liggur ekki svo á.

Fjármögnun

Eins og liklega á flestum heimilum landsins er ílát undir smápeninga sem hafa safnast í ferðalögum gegnum árin auk innlends gjaldmiðils(afgangur öðru nafni). Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar,sótti krukkuna og fór að raða og telja. Skil aðdráttaraflið og áhuga Jóakims Aðalandar nú mun betur (þeir sem þekkja ekki til Jóakims geta lesið sig til um lifshlaup hans og ættfræði hér https://www.andeby.dk/artikler/joakim-von-and/ ).

Mikið af þessu eru íslenskar krónur og aurar sem er búið að  úrelda.  Eins lírur, frankar, pesetar og gömul pund sem ekki eru lengur gjaldgeng (UK tók út 1.punda mynnt úr umferð 2017 þvi þeir töldu 25% hennar vera fölsuð) og fleiri myntir frá löndum sem ég hef aldrei ferðast til. Eftir stóðu um 15 evrur og mest í centum, rúmlega 6 pund og 50 Dkr. Í stað þess að grútast á þessu og eyðileggja vasa tek ég þetta með í flugvél Icelandair. Þar er umslag í sætisvösum fyrir erlenda smámynnt og mun koma að betri notum en að verða að engu í krukkunni heima.  Ætla þó að halda eftir tveimur pundum í sturtusjálfsalann í bátaklúbbi Leirvíkur í Hjaltlandi, detti maður þar inn. Ætli einhver hafa reiknað út almenna kaupmáttarrýrnun vegna krukkupeninga?  Væri forvitnilegt að vita.

Póe

Eftir
Fyrir

Prufusigling

Í dag var farið með Hinrik III í prufusiglingu . Í áhöfn auk mín var Jóhann Hauksson, mágur minn. Siglt var suður Flensborgarfjörð og snúið síðan austur á bóginn í áttina til Sönderborgar. Sprækur vindur var, 5 til 6 vindstig meðan best var , og siglt fullum seglum. Hraði á hliðarvindi fór stundum yfir 8 hnúta, en mín tilfinning var þó sú að skipið ætti þar töluvert meira inni ef vindur hefði verið sterkari. Hinrik siglir í svona aðstæðum frekar uppréttur, þ.e.a.s. honum hallar ekki mikið. Ef vindhviða skellur á bætir hann ekki í hallann heldur eykur aðeins ferðina. Þetta er í samræmi við það sem gamli Gunther sagði mér og er mjög skemmtilegur eiginleiki í einni skútu. Hins vegar beitir hann ekki eins vel og ekki eins hátt og gamli Hinrik minn II. gerði . Né heldur er hann eins auðveldur að stýra og flatbotnaðir bátar með blaðstýri. Eftir siglinguna var ljóst að stilla þurfti reiðann og nokkur stög voru strekkt, þegar komið var í land, og önnur slökuð. Ný Genóa, sem þarna var reynd í fyrsta sinn, reyndist hrein gersemi og breytir miklu til bóta fyrir skipið. Ég þarf að muna eftir því að skrifa honum Jörgen seglmakara í Flensborg og þakka honum fyrir vel hannað segl. Hann gerði sér ferð um borð til mín í fyrra og mældi og pældi mikið áður en hann lét til skarar skríða að sauma seglið. Það kom á daginn að havarí varð í ferðinni með bönd þau er nefnast lazy jacks og er í tísku að hafa á seglskipum nú til dags. Mér er hálf illa við þessi bönd , held að þau skapi meiri vandræði en gagn, en hef ekki viljað taka þau niður af virðingu við gamla Gunther vinn minn sem sagði þessi bönd gulls ígildi. Ég hef nú hagrætt þeim nokkurð og vona að þau verði til friðs héðan í frá.
Bestu kveðjur
Finnur

Undirbúningur þarna syðra

Sól og blíða er hér í Grásteini , þar sem Hinrik III liggur undir íslenskum fána við stangir og strengi. Ég hef nú flutt um borð eftir ljúfa dvöl hjá Ingveldi systur minni og Jóhanni mági mínum. Tvo prufutúra hef ég farið undir vél sem gengu eins og í sögu. Búnaður skipsins neðan þilja , helstu siglingatæki, miðstöð, eldavél, klósett o.s.o.frv. hefur verið kannaður og reyndur og það lagað sem laga þurfti .Virðist nú allt í fínu lagi. Í dag verða segl sett við rár og reipi . Haraldur skútukarl frá Dalvík , sem er á skútu sinni Nínu hér í höfninni, leit yfir vélina í Hinriki og leist vel á. Gaf hann mér góðar ábendingar um eitt og annað. Taldi hann  Hlésey góðan viðkomustað á leið norður Kattargat, en gæta þyrfti maður  vel að grunnsævi sem nær nokkuð langt út í siglingaleiðina. Einn vinur hans strandaði þar eitt sinn. Þá sagði Haraldur eyjuna Anholt vera fallegan stað að koma á . Þó þyrfti maður að vara sig á þvi að missa ekki mannskapinn af skipinu þvi að nektarnýlenda er á eyjunni og minnir þetta svolítið á Ódysseif forðum.

Finnur.

———-

Ég vil bæta því við að það er búið að skipa í allar stöður á skipinu. Finnur auðvitað skipstjórinn en undirritaður er útnefndur kokkur eða bryti. Ég held að Finnur hafi dregið einhverjar ályktanir af hæfni mínu í eldhúsinu af vaxtarlagi fremur en hann hafi einhverjar hugmyndir um getu mína þar. Að vísu eldaði ég einhvern tíma ofaní hann og fleiri (skútukalla í Snarfara) kjötsúpu og var góður rómur gerður af því soði. Svo fékk hann hjá mér á siglingu á minni eigin skútu heitt súkkulaði (tek sérstaklega fram að það var ekki kakó) með bragðbæti í sterkari kantinum. Það mæltist vel fyrir. Róbert á að lesa í fuglahegðun til þess að finna hnattstöðuna ef GPS klikkar og Benedikt sem er yngstur okkar er öryggisventill á að finna hluti sem við hinir höfum mislagt og að halda okkur á réttum kúrs. Reynslan sýnir að við hinir erum farnir að gleyma og gætum allt eins farið að stefna suðureftir ef ekkert er eftirlitið. Óneitanlega er að koma fiðringur í mann og tæpar 3 vikur í flug og start.

Póe

Aðeins um siglingaleið og áfangastaði

Hér kemur tillaga um siglingaleið og áfangastaði. Frá Grásteini liggur leið til Hléseyjar, sem er norðanlega í Kattargati. Á leiðinni þangað er hægt að stoppa hvar sem hentar á dönsku eyjunum. Frá Hlésey liggur leið til Leirvíkur á Hjaltlandi. Á þeirri leið er hægt að stoppa t.d. á Kristjánssandi eða Stavangri eftir atvikum. Eftir að við höfum náð Þórshöfn í Færeyjum finnst mér koma vel til greina að fara norður fyrir Ísland, eins og Önundur tréfótur frændi okkar gerði á sínum tíma, , og stoppa á þeirri leið hvar sem okkur hentar. Aðallega held ég samt að við munum láta byr ráða. Ég hyggst grafa upp og taka með leiðarlýsingu Landnámu , sem forfeður okkar fylgdu og byggir m.a. á skýjafari og flugi fugla. Ég treysti Róberti vel til að lesa í fuglahegðun til þess að finna hnattstöðuna.

B.kv.

Finnur


Skútan

Ég spurði Finn Torfa um skútuna þ.e. gerð og slíkt. Ætla ekki að endurorða eitt eða neitt en þetta er svarið sem Finnur sendi.

Þessi skúta er það sem kalla má limited edition. Hönnuðurinn var þýskur að nafni Gilgenast, mjög frægur og  teiknaði mest stórjaktir fyrir þá forríku. Skrokkur og dekk var smíðað af litlu Mittelstand fyrirtæki í Norðurþýskalandi. Vinur minn , sá sem seldi mér skútuna og bróðir hans sem var smiður, kláruðu verkið með það fyrir augum að sigla um hnöttinn sem aldrei varð . Hún er byggð til þess að endast án þess að brotna og er þess vegna í þyngri kantinum. „

Svo fékk ég þessar uppl um skipið. Atlandis 40, 12,2m, breidd 4,1, djúprista 1,7 og kjölur eitthvað um 4,7 tonn. Eign þyngd um 13t. Vél 53 hp. Nú, 180 l díseltankur, 100 l vatnstankur, landrafmagn og hitt og þetta eins og gengur með af tækjum og tólum til gamans og gagns. Svefnpláss er fyrir 10 en helvíti yrði þröngt ef nýta ætti hvert rými. Af myndum sem ég hef séð inni í skútunni er meira lagt upp úr að hlutir endist og séu notaðir en að vera endilega augnayndi.

Það er svo búið að kaupa flugmiða aðra leið til Hamborgar i lok júni þannig að ferðin er hafin. (Póe)

Nýtt ævintýri

Upp úr Jónsmessu er hugmyndin að fljúga til Danmerkur og sækja þangað skútu. Skútan sem ber nafnið Hinrik III, kjagar makindarlega við höfn í Grasten, (Grasten með bollu a-i) sem er lítið pláss við Flensborgarfjörð. Þetta er tvímastra skúta (Cutter eða ketch/kútter) um 40 ft. og eitthvað við aldur eins og væntanleg áhöfn en sterkbyggð og traust. Fleyið er í eigu Finns Torfa Stefánssonar tónskálds, lögfræðings, gítarsnillings og sögumanns (og auðvitað siglingamanns og skipstjóra). Ég hlakka til og ætla að þegja, hlusta, spyrja og njóta.
Ég er að hugsa um að skrifa ferðasöguna og helst að aðrir ferðalangar skrifi sína kafla og þeirra upplifun eins og gengur. Allavega, hér er mynd af fleyinu og vonandi að þetta verði að veruleika en mér sýnist allt stefna í það. (póe)